Skapandi Austurland - vinnustofa

Nýsköpunar- og þróunarsvið Austurbrúar stendur fyrir vinnustofu um stefnumótun skapandi greina á Austurlandi þriðjudaginn 18. mars klukkan 16. Vinnustofan er öllum opin og verður haldin í fyrirlestrarsal Menntaskólans á Egilsstöðum.

Stefnumótunarvinnan hefst á stuttum innlögnum um stöðu skapandi greina almennt og þeim tækifærum sem felast í eflingu þeirra. Þá verður kynning á þeirri þróunarvinnu sem farið hefur fram í MAKE by Þorpið undanfarin ár og einnig kynning á SAM félaginu, grasrótarsamtökum skapandi fólks á Austurlandi.

Rætt verður um hvernig þau verkfæri og afurðir sem Þorpsverkefnið hefur getið af sér geta nýst til að efla skapandi greinar á Austurlandi ásamt því að móta sýn til framtíðar um atvinnusköpun í menningartengdum verkefnum og/eða á sviði skapandi greina.

MAKE by Þorpið er þriggja ára gamalt verkefni sem hefur m.a. að markmiði að auka fagmennsku á sviði vöruhönnunar og listhandverks á Austurlandi ásamt því að þróa leiðir til að markaðssetja vörurnar í tengslum við ímynd landshlutans sem áfangastaðar fyrir skapandi fólk. Mikil áhersla er lögð á að hámarka virði staðbundinna hráefna og nýta auðlindir í formi hráefna og mannauð tækja og tóla. MAKE by Þorpið vinnur markvisst með staðbundin hráefni og aðstæður en leggur mikla áherslu á að opna gluggann út í heim og vinna í alþjóðlegu tengslaneti.

Sem fyrr segir er vinnustofan öllum opin og fer fram í húsakynnum Menntaskólans á Egilsstöðum (fyrirlestrarsal, gengið inn að neðanverðu).

Nánari upplýsingar veitir Lára Vilbergsdóttir (lara@austurbru.is), verkefnisstjóri skapandi greina í síma 470 3806.