- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Nú þegar farið er að skyggja á kvöldin er tímabært að huga að endurskinsmerkjum. Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða. Þetta á sérstaklega við þegar um dökkan klæðnað er að ræða en þó má í öllum tilfellum fullyrða að endurskinsmerki séu nauðsynleg.
Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa endurskinsmerkin fremst á ermum, á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum. Þá virka endurskinsmerkin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau.
Jafnframt er minnt á að ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni þá eiga reiðhjól að vera með ljós að framan, hvítt eða gult og rautt ljós að aftan. Og fyrir hjólreiðamenn og aðra hraðskreiða er endurskinsvesti góður öryggisbúnaður.
Þá er hægt að líma endurskinsmerki á hunda- og kattaólar og sjálfsagt er að bregða sérstökum endurskinsborðum um fætur hestsins þegar farið er í reiðtúr.
Auðvelt ætti að vera að finna endurskin við hæfi, því það eru til margar gerðir og stærðir eins og endurskinsvesti, hangandi merki, klemmur og límmerki. Endurskinsmerki fást víða, t.d. í lyfjaverslunum og á bensínstöðvum, og má stundum fá frítt hjá tryggingfyrirtækjum og bönkum. Einnig selja ýmis samtök endurskinsmerki í fjáröflunarskyni. Þá fást í vefnaðarvöruverslunum borðar til að sauma á flíkur eða festa með frönskum rennilás.