Sjáumst - Endurskinsmerki á alla

Fólki er eindregið bent á að leita uppi endurskinsmerkin sín frá í fyrra eða fá sér ný – og nota þau. Nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir slys að allir séu vel sjáanleg í myrkrinu.

Auðvelt ætti að vera að finna endurskin við hæfi, því það eru til margar gerðir og stærðir eins og endurskinsvesti, hangandi merki, klemmur og límmerki. Endurskinsmerki fást víða, t.d. í lyfjaverslunum og á bensínstöðvum, og má stundum fá frítt hjá tryggingfyrirtækjum og bönkum. Einnig selja ýmis samtök skemmtileg endurskinsmerki í fjáröflunarskyni. Þá fást í vefnaðarvöruverslunum borðar til að sauma á flíkur eða festa með frönskum rennilás.

Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa endurskinsmerkin fremst á ermum, á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum. Þá virka endurskinsmerkin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau.

Þá skal minnt á að ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni þá eiga reiðhjól að vera með ljós að framan, hvítt eða gult og rautt ljós að aftan. Og fyrir hjólreiðamenn og aðra hraðskreiða er endurskinsvesti góður öryggisbúnaður.

Því fyrr og betur sem ökumenn greina gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarendur þeim mun meira er öryggi þeirra síðarnefndu í umferðinni.