Sjálfboðaliðar bjuggu til skautahöll á Egilsstöðum

Nítján sjálfboðaliðar frá Alcoa Fjarðaáli og fjölskyldur þeirra unnu hörðum höndum föstudaginn 14. janúar við að koma upp skautasvelli í gamla "Bragganum" við Sláturhúsið, sem er menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Húsnæðið var áður korngeymsla en mun nú þjóna nýju hlutverki og gefa íbúum Austurlands tækifæri á að renna sér á skautum við prýðilegar aðstæður.

"Sagan á bak við þetta framtak er þannig að nokkrir starfsmenn sem hafa lengi haft áhuga á því að koma upp skautasvelli, tóku sig saman um að láta drauminn rætast," segir Anna Heiða Pálsdóttir sem hefur yfirumsjón með sjálfboðaliðaverkefnum hjá Fjarðaáli. "Þau settu ótrúlega mikinn kraft í þetta og tölvupóstarnir flugu fram og aftur. Þótt fólkið komi frá Reyðarfirði, Fljótsdalshéraði og víðar að, náðu þau fljótt samkomulagi um að byrja á því að koma upp skautasvelli á Egilsstöðum", segir Anna.

Samfélagssjóður Alcoa styrkti verkefnið, en það voru 30 manns í allt sem unnu að því. Verkefnið hafði mjög skamman aðdraganda en með samstilltu átaki starfsfólks Alcoa og forstöðumanni Sláturhússins, atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa Fljótsdalshéraðs og fleirum var öllum hindrunum rutt úr vegi og draumur margra um yfirbyggt skautasvell gerður að veruleika. Verkefnið er þannig einnig gott dæmi um hverju hægt er að áorka þegar margir leggjast á eitt.

Í bígerð er að stofna skautafélag á Austurlandi á næstunni.