Sigríður Lára verkefnisstjóri sviðslista

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri sviðslista hjá Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og hefur hún störf 1. ágúst. Sígríður Lára hefur undanfarin ár stundað doktorsnám við Háskóla Íslands þar sem leikhús og gjörningar á Íslandi síðustu ár hafa verið hennar viðfangsefni. Hún hefur einnig sinnt þar stundakennslu. Hún hefur lokið fjölda námskeiða í leiklist, leikritun og leikstjórn hérlendis og erlendis, starfað með leikfélögum og að málefnum leiklistarinnar um langa hríð og skrifað fjölda styttri og lengri leikverka.

Hlutverk Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs er að efla lista- og menningarstarf á Fljótsdalshéraði og Austurlandi. Samkvæmt samningi Fljótsdalshéraðs við Menningarráð Austurlands hefur menningarmiðstöðin sviðslistir sem sérsvið. Verkefnisstjóri sviðslista vinnur einnig með Menntaskólanum á Egilsstöðum að nokkrum skilgreindum verkefnum.

Sigríður Lára mun í starfi sínu m.a. hafa umsjón með samstarfi við stofnanir og skóla á sviði sviðs- og kvikmyndalista með það að markmiði að efla þessa starfsemi á Austurlandi, hafa samstarf við Þjóðleikhúsið m.a. um leiklistarverkefnið Þjóðleik, veita ráðgjöf og upplýsingar um sviðslistir og vinna að framþróun listgreinarinnar á svæðinu. Einnig mun Sigríður vinna að mótun sviðslistanáms á listabraut Menntaskólans á Egilsstöðum og kenna sviðslistaráfanga við skólann.