Sembalhátíð í Vallanesi

Tónleikararnir á sunnudag hefjast með einleikstónleikum Guðrúnar Óskarsdóttur, semballeikara en efti…
Tónleikararnir á sunnudag hefjast með einleikstónleikum Guðrúnar Óskarsdóttur, semballeikara en eftir hlé verða flutt verk ungra tónskálda frá Austurlandi sem sérstaklega hafa verið samin fyrir hátíðina.

Sembalhátíð í Vallanesi verður að þessu sinni haldin í Vallneskirkju dagana 3. og 5. nóvember.

Föstudaginn 3. nóvember kl. 18 verða haldnir nemendatónleikar þar sem þátttakendur verða nemendur af Héraði og frá Fáskrúðsfirði. Flutt verður fjölbreytt tónlist, bæði samspil og einleikur, en verkin verða aðallega frá barroktímabilinu. Aðgangur á þessa tónleika er ókeypis.

Sunnudaginn 5. nóvember klukkan 15 eru stórir „kaffitónleikar“ hátíðarinnar. Þeir hefjast með einleikstónleikum Guðrúnar Óskarsdóttur, semballeikara. Kynnt verða verk gömlu meistaranna svo sem Couperin og Scarlatti en einnig samtímatónskálda, Kolbeins Bjarnasonar og Önnu Þorvaldsdóttur.

Eftir hlé eru flutt verk ungra tónskálda frá Austurlandi sem sérstaklega hafa verið samin fyrir hátíðina. Tónskáldin eru Benedikt Hermann Hermannson, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Leif Kristján Gjerde, Ólafur Geir Guðlaugsson og Sunna Celeste Ross. Aðgangur á þessa tónleika er 1500 krónur, ókeypis fyrir nemendur.

Guðrún Óskarsdóttir hóf nám í semballeik í Tónlistarskólanum í Reykjavík, hjá Helgu Ingólfsdóttur. Framhaldsnám stundaði hún við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam, Scola Cantorum í Basel og hjá Francoise Lengellé í París. Guðrún leikur jöfnum höndum nýja og gamla tónlist og hefur tekið þátt í frumflutningi ótal íslenskra og erlendra verka. Á síðasta ári kom út einleiksdiskur með leik Guðrúnar þar sem hún leikur nýja íslenska tónlist fyrir sembal. Hún hlaut íslensku tónlistarverðlaunin 2016 fyrir diskinn.

Sembalhátíðin er styrkt af Fljótsdalshéraði og Uppbyggingarsjóði Austurlands