Selskógur grisjaður

Undan farna daga hefur verið unnið að grisjun meðfram skógarstígum í Selskógi. Grisjunin á bæði að auðvelda aðgengi í skóginum og fegra hann fyrir íbúa Fljótsdalshéraðs sem og aðra gesti. Grisjun er nauðsynleg til að skógurinn og gróðurinn í honum sé sem líflegastur, því þegar bil á milli trjánna eykst kemst meira sólarljós að skógarbotninum. Það leiðir svo til þess að ung tré eiga auðveldara uppdráttar. Nokkuð er um að birkitré hafi drepist sökum maðks á undarförum árum og haldið er áfram að hreinsa þau út úr skóginum í ár. Í skóginum vex aðallega birki en ný sjálfsáð reynitré sjást á hverju ári.
Þetta er þriðja sumarið sem unnið er að grisjun skógarins, og í ár er haldið áfram þar sem frá var horfið í fyrra haust. Eins og áður er það fyrirtækið Skógráð ehf. sem sér um grisjunina.