Sauðkindarþema í Egilsstaðaskóla

Í Egilsstaðaskóla er verk- og listgreinum gert hátt undir höfði og sú hefð hefur skapast að á hverjum vetri vinnur 6. bekkur að þemaverkefni. Allir kennarar list- og verkgreina standa að þessu verkefni og nú þetta skólaár einnig umsjónarkennarar og kennari í upplýsingatækni. Í ár var þemað, sauðkindin.

Verkefnið hófst í september og lauk í síðustu viku nóvembermánaðar. Fyrirkomulagið var þannig að nemendur rúlluðu milli list og verkgreina í fjórum hópum, 5 skipti í senn. Þannig var unnið að mismunandi útfærslu sauðkindarinnar í texíl , smíðum og myndmennt. Auk þess smökkuðu og elduðu nemendur ýmislegt úr sauðfjárafurðum allt frá þjóðlegum réttum eins og sviðasultu til þess að gera pottrétt.

Samhliða unnu nemendur með umsjónarkennurum, teiknuð voru upp hugarkort þar sem t.d. litaafbrigði, nöfn og störf tengd sauðfjárhaldi voru skoðuð. Einnig tóku nemendur viðtöl við gamla og nýja sauðfjárbændur og sömdu „leikþætti“ eða stutt samtöl sem gætu mögulega átt sér stað í réttum, við sauðburð eða þess háttar. Í upplýsingatækni fengu nemendur að velja sér viðfangsefni og hvernig þeir útfærðu þau. Búnir voru til bæklingar og myndbönd. Nemendur sýndu t.d. leiki sem tengdust kindum, fjölluðu um hjátrú, sauðaþjófa og sögur af forystukindum.

Í lokin var efnt til sýningar í skólanum. Foreldrum, ömmum og öfum var boðið svo og ýmsu fólki úr nærsamfélaginu, t.d. þeim sem veittu viðtöl. Listmunir sem nemendur höfðu unnið voru til sýnis, viðtöl lesin og leikþættir fluttir, auk þess sem gestum og gangandi var boðið upp á kjötsúpu og bollur að hætti hússins. Rúsínan í pylsuendanum var svo afhjúpun útilistaverks sem nemendur höfðu unnið að sameiginlega. Að sjálfsögðu var það blessuð sauðkindin í fullri stærð, unnin að mestu úr áli.
Þemaverkefni sem þetta hefur margt gott í för með sér, ekki síst aukna vinnugleði og fjölbreyttara og skemmtilegra skólastarf.