Sannleiksnefnd um Lagarfljótsorminn kemur saman


Sannleiksnefnd um Lagarfljótsorminn hefur verið kölluð saman til fundar og fer fundurinn fram í félagsheimilinu að Iðavöllum, laugardaginn 23. ágúst kl. 15.00. Markmið fundarins er að að leggja mat á sannleiksgildi myndbands Hjartar Kjerúlfs og ljósmyndar Sigurðar Aðalsteinssonaraf orminum frá 2012. En bæjarstjórn Austur-Héraðs hét árið 1997 hálfri milljón króna í verðlaunafé þeim sem lagt gæti fram sönnun um tilvist ormsins í Lagarfljóti.
Áður en fundurinn verður haldinn fer nefndin í stutta vettvangsferð að Lagarfljóti. Niðurstaða af fundi nefndarinnar verður kynnt formlega í Hreindýraveislu Ormsteitis, sem fram fer þá um kvöldið.

Stefán Bogi Sveinsson kynnti á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs þann 20. ágúst fyrirkomulag fundarins og mögulega þátttöku áður skipaðra nefndarmanna. Ljóst er að vegna forfalla í hópi þeirra þarf að kalla til varamenn til starfa í nefndinni.
Bæjarstjórn samþykkti því tillögu um eftirfarandi skipan Sannleiksnefndarinnar:

Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi, formaður
Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs
Anna Alexandersdóttir, bæjarfulltrúi
Jónína Rós Guðmundsdóttir, fv. alþingismaður
Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur
Rán Þórarinsdóttir, líffræðingur
Hlynur Gauti Sigurðsson, landslagsarkitekt og myndatökumaður
Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, þjóðfræðingur
Dagur Skírnir Óðinsson félagsfræðingur.
Þorvaldur P. Hjarðar, svæðisstjóri
Magnús H. Skarphéðinsson, skólastjóri
Arngrímur Vídalín, miðaldafræðingur
Það mun því væntanlega ríkja nokkur spenna í bragganum á laugardagskvöldið þegar stóri sannleikurinn verður opinberaður gestum Hreindýraveislunnar og öðrum landsins lýð.