Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Frá undirskift samningsins 10. febrúar. Á myndinni eru Ásmundur Einar Daðason ráðherra, Björn Ingima…
Frá undirskift samningsins 10. febrúar. Á myndinni eru Ásmundur Einar Daðason ráðherra, Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, Gyða Hjartardóttir, verkefnastjóri ráðuneytisins, Anna Alexandersdóttir, formaður Félagsmálanefndar Fljótsdalshéraðs, og Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs.

Þann 1. apríl  mun Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra opna rafrænan vettvang um sérðhæfða skilnaðarráðgjöf. Eins og kunnugt er hefur hann gert samning við danska fyrirtækið SES (Samarbejde efter Skilsmisse) vegna tilraunaverkefnis 2020 um innleiðingu sérhæfðrar skilnaðarráðgjafar í félagsþjónustu til foreldra á Íslandi. Verkefnið er unnið að danskri fyrirmynd og byggir efnið á nýjustu þekkingu, sem byggir á bæði rannsóknum fræðimanna og reynslu fagfólks. Nýjar danskar rannsóknir benda til verulegs ávinnings af því að nota þessa rafrænu fræðslu, auk ráðgjafar og námskeiðshalds fagfólks hjá sveitarfélögunum.

Reynsluverkefnið hér á landi verður til að byrja með í samvinnu við tvö sveitarfélög, Fljótsdalshérað og Hafnarfjörð. Markmið verkefnisins er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í félagsþjónustu og efla félagslega ráðgjöf með áherslu á skilnaðarmál, forsjár- og umgengnismál, barnanna vegna. Með því að veita ráðgjöf og þjónustu á fyrri stigum með ráðgjöf hjá félagsþjónustu standa vonir til þess hægt sé að draga úr líkum á ágreiningi á milli foreldra. Þannig má vonandi fækka þeim málum sem enda hjá sýslumönnum og vonandi létta eitthvað á því álagi sem þar hefur skapast.

Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Hagstofu Íslands enda tæplega 40% hjónabanda á Íslandi með lögskilnaði, en þá er ótalinn sá hópur foreldra sem á börn saman og slítur sambúð. Það má því ætla að börnin sem um ræðir séu uþb. 1100 - 1200 börn árlega á landsvísu, þ.e. í kringum 700 barnafjölskyldur á ári.
Langtímaáhrif skilnaðar á líðan barna geta verið verulega íþyngjandi, fyrir börnin sjálf og samfélagið. Það er oft ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum. Bæði íslenskar og erlendar rannsóknir benda skýrt til þess að hægt sé að lágmarka skaðsemi skilnaðar ef foreldrar fá tímanlega aðstoð við að vinna úr tilfinningalegri togstreitu og ná að vinna saman í skilnaðarferlinu.

Með þessu verkefni er brugðist við því og á reynslutímanum gefst foreldrum sem eru að skilja eða slíta sambúð tækifæri til þess að prófa námskeið í þremur stafrænum áföngum. Auk þess sem fagfólk hjá félagsþjónustu umræddra sveitarfélaga bjóða sérstaklega upp á sérhæfða einstaklingsráðgjöf og námskeið fyrir fólk sem er skilið og á börn saman.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Gyða Hjartardóttir, félagsráðgjafi MA, aðjúnkt í félagsráðgjöf við HÍ og sérfræðingur í málefnum barna og Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við HÍ og þerapisti hjá Meðferðarþjónustunni Tengsl.

Félagsþjónusta Fljótsdalshérað mun bjóða upp á ráðgjöf og stuðning við foreldra sem eru að hugsa um að skilja, eru í skilnaðarferli eða hafa skilið fyrir einhverju síðan og vilja bæta samvinnu sín á milli. Boðið verður upp á námskeið fyrir foreldra en vegna stöðunnar í þjóðfélaginu verður líklegast ekki hægt að halda fyrsta námskeið fyrr en í haust. Fram að því mun félagsþjónustan veita einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðningsviðtöl. Einnig býðst foreldrum að taka þátt í námskeiði á netvangi verkefnisins.

Frekari upplýsingar er hægt að fá á netvangnum samvinnaeftirskilnad.is eða með því að senda fyrirspurn til Guðrúnar Helgu Elvarsdóttur, verkefnisstjóra, í síma 4 700 700 eða með tölvupósti á gudrunhelga@egilsstadir.is.