Samvera fjölskyldunnar skiptir máli

Slóðin á Samanhópinn er http://samanhopurinn.is/
Slóðin á Samanhópinn er http://samanhopurinn.is/

Í nokkur ár hefur Fljótsdalshérað verið hluti Saman-hópsins, en aðalmarkmið þess hóps er að auka samstarf fólks sem vinnur að forvörnum. Skilaboðum hópsins hefur frá stofnun verið komið á framfæri í fjölmiðlum, með umræðum og auglýsingum, en hópurinn leggur áherslu á að starf hans skili sér til allrar landsbyggðarinnar.

Í sumar og haust vill Saman-hópurinn undirstrika mikilvægi samverunnar fyrir forsjárfólk og unglinga, enda hafa rannsóknir sýnt að samvera fjölskyldunnar er ein helsta skýring á góðu gengi Íslendinga í forvörnum á undanförnum árum. Er þessi samvera, og mikilvægi þess að saman skapi fjölskyldan góðar minningar, megininntakið í auglýsingum hópsins, en þeim hefur verið dreift víða. Reynt er að undirstrika að samvera þurfi ekki endilega að þýða útgjöld, við getum spjallað saman, spilað saman, sungið, leikið, hjólað, eldað og farið í göngutúra svo dæmi séu tekin.

Í Dagskránni sem kom út miðvikudaginn 11. júlí mátti sjá á baksíðunni auglýsingu frá Saman-hópnum sem minnir á samveru fjölskyldunnar og í sumar og haust munu að auki hanga uppi veggspjöld víða um sveitarfélagið.

Á Fljótsdalshéraði er hæglega hægt að finna eitthvað til að kanna og gera saman, til viðbótar við það sem hægt er að gera heima. Má þar til að mynda nefna Perlurnar okkar, Bókasafnið, Minjasafnið, sundlaugina, ótal falleg opin svæði og leiksvæði, golfvöllinn að Ekkjufelli, íþróttavellina okkar og margt, margt fleira. Þá er að sjálfsögðu nóg að sjá, gera og skoða í nágrannasveitarfélögunum okkar.

Góða og gleðilega samveru í sumar!