Samþykkt að hefja sameiningarviðræður

Möguleikar kannaðir á því að sameina sveitarfélögin Borgarfjarðarhrepp, Djúpavogshrepp, Fljótsdalshé…
Möguleikar kannaðir á því að sameina sveitarfélögin Borgarfjarðarhrepp, Djúpavogshrepp, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað.

Á fundum sveitarstjórna Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps, sem haldnir hafa verið í þessari viku, hefur verið til umfjöllunar tillaga um að ganga með formlegum hætti til undirbúnings að mögulegri  sameiningu þessara sveitarfélaga.

Bæjarstjórn Fljótsdalshérað samþykkti samhljóða eftirfarandi tillögu um málið:

„Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkir að skipa 3 fulltrúa í samstarfsnefnd sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga.
Ákvörðun þessi er tekin á grundvelli niðurstöðu skoðunarkönnunar á meðal íbúa umræddra sveitarfélaga, er framkvæmd var á vordögum 2018, en niðurstöður hennar sýndu vilja íbúa til sameiningar. Horft er til þess m.a. að sameining muni leiða til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum líkum á að ná árangri í áherslum í byggða- og samgöngumálum er unnið hefur verið að árum saman.

Stefnt skal að því að samstarfsnefnd skili niðurstöðum til sveitarfélaganna þannig að hægt verði að leggja þær fyrir íbúa þeirra til ákvörðunar fyrir lok árs 2019 en samstarfsnefndinni er falið að setja verkefninu tímaramma og endurskoða hann eftir því sem verkefninu vindur fram.
Fulltrúi Fljótsdalshéraðs skal boða samstarfsnefndina saman til fyrsta fundar.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs felur bæjarráði að skipa fulltrúa Fljótsdalshéraðs og tilkynna um það til hinna sveitarfélaganna“.

Nú hafa allar sveitarstjórnirnar samþykkt samhljóða að stíga þetta skref og er gert ráð fyrir að samstarfsnefnd þeirra hefji sína vinnu nú í byrjun nóvember.