- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Í morgun, 8. mars, var samstarfssamningur á milli Fljótsdalshéraðs og Embættis landlæknis um þróunarverkefnið Heilsueflandi samfélag undirritaður á skrifstofu sveitarfélagsins. Það voru Birgir Jakobsson, landlæknir, og Stefán Bragason, í umboði bæjarstjóra, sem skrifuðu undir samninginn og Fljótsdalshérað bættist þá í hóp þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem hyggjast efla enn frekar lýðheilsu og lífsgæði íbúa sinna.
Heilsueflandi samfélag miðar að því að stuðla að sem bestri lýðheilsu og lífsgæðum íbúa Fljótsdalshéraðs og er lögð áhersla á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum samfélagsins. Jafnframt byggir verkefnið á samstarfi stofnana sveitarfélagsins, heilsugæslu, íþróttafélaga og fleiri aðila. Til grundvallar verða lagðir fjórir áhrifaþættir heilbrigðis, næring, hreyfing, geðrækt og lífsgæði.
Á næstunni verður skipaður stýrihópur um verkefnið en ljóst er að árangri á sviðum heilsueflandi samfélags verður best náð með samstarfi við íbúana og með aðkomu þeirra aðila sem á einhvern hátt geta haft áhrif á mismunandi samfélagsþætti.