Samstarfssamningur gerður við Runavik

Á síðasta fundi bæjarstjórnar kynnti Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, nýjan samstarfssamning sem hann undirritaði nýverið við Runavík í Færeyjum, samkvæmt umboði bæjarráðs. Í framhaldi af því staðfestir bæjarstjórn samstarfssamninginn og bókaði að hún væntir mikils af áframhaldandi góðum samskiptum við íbúa Runavíkur.

Samningurinn tekur á margvíslegu samstarfi íbúa þessara sveitarfélaga, t.d. á sviði menningar- íþrótta- og fræðslumála. Í gegn um árin hafa verið nokkur samskipti á milli þessara sveitarfélaga bæði kjörinna fulltrúa og einnig íþróttahópa, listamanna, eldri borgara og svo frv.  Á þessu ári komu fulltrúar frá Runavik á atvinnusýninguna sem haldin var í tengslum við Ormsteitið og eins fóru fulltrúar frá Fljótsdalshéraði til Runavikur nýlega og tóku þátt í fyrirtækjastefnumóti sem þar er haldið árlega. Það var mat fulltrúa Fljótsdalshéraðs að mörg tækifæri lægju í áframhaldandi og auknum samskiptum íbúa sveitarfélaganna, m.a. á sviði ferða- og markaðsmála.

Stefnt er að því að kynna samstarfssamninginn og greina frekar frá ferð fulltrúanna til Runavíkur í næsta fréttabréfi Fljótsdalshéraðs.

Myndin sem fylgir fréttinni er af fundarmönnum í Runavík.