Þann 5. desember voru undirritaðir samningar á milli Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshrepps, Vopnafjarðarhrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar um sameiginlega félagsmála – og barnaverndarnefnd, og félagsþjónustu á svæðinu.
Samningarnir sem undirritaðir voru í síðustu viku eru í samræmi við samninga sem gerðir voru milli sveitarfélaganna á síðasta ári, að öðru leyti en því að Seyðisfjarðarkaupstaður kemur nú að þessu samstarfi með sama hætti og hin sveitarfélögin.
Fyrirkomulag félagsþjónustunnar á umræddu svæði byggir á því að sveitarfélögin sex standa sameiginlega að einni félagsmála- og barnaverndarnefnd. Nefndin er skipuð 5 fulltrúum sveitarfélaganna. Hlutverk félags – og barnaverndarnefndar er að fara með mál samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndarlögum, lögum um málefni fatlaðra, lögum um málefni aldraðra ásamt að veita umsagnir í forsjár, - umgengnis – og ættleiðingamálum samkvæmt barnalögum. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem henni kunna að verða falin samkvæmt ákvæðum laga eða eftir ákvörðun sveitastjórnanna.
Grundvöllur samningsins er einnig fólgin í gerð samnings um félags – og barnaverndarþjónustu á milli sveitarfélaganna sex. En Fljótsdalshérað sinnir þeirri fagþjónustu sem lýtur að móttöku, skráningu og úrvinnslu allra barnaverndarmála sem koma upp á starfssvæðinu auk þess að beita stuðningsaðgerðum til hagsbóta fyrir einstök börn og fjölskyldur þeirra þegar það á við. Starfsmenn félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs sjá þá um helstu verkþætti varðandi almenna félagslega ráðgjöf, móttöku og úrvinnslu á umsóknum um fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu.
Viðverða starfsfólks félagsþjónustunnar í einstökum sveitarfélögum er eftir þörfum og samkomulagi félagsmálastjóra og sveitarstjóra viðkomandi sveitarfélags.