Samningur um rekstur tjaldstæðis undirritaður

Síðastliðinn föstudag, 19. mars, var gengið frá samningum um rekstur  tjaldstæðis á Egilsstöðum, til næstu fjögurra ára. Eins og fram hefur komið var rekstur tjaldstæðisins auglýstur til leigu í desember, í kjölfar þess að Upplýsingamiðstöð Austurlands sagði upp samstarfssamningi um rekstur tjaldstæðisins. Tilboðin voru opnuð um miðjan janúar og bárust alls 6 tilboð í reksturinn. Á grundvelli þeirra samþykkti atvinnumálanefnd og bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs að gengið yrði til samninga við Steindór Jónsson ehf. 

Áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu miðbæjar Egilsstaða undanfarin misseri. Í deiliskipulagi fyrir svæðið hefur lengi verið gert ráð fyrir tjaldstæði, sem stutt geti við og eflt mannlíf og þjónustu miðbæjarins. Með nýju tjaldstæði við Kaupvang eru bundnar vonir við að þessi bætta aðstaða við ferðamenn nýtist vel í sumar og við áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Fljótsdalshéraði.

Í fyrrahaust var hafist handa við gerð nýs tjaldstæðis austan Kaupvangs með því að svæðið var sléttað og þökulagt auk þess sem komið var fyrir rafmagnstengingum, gróðri og leiktækjum. Syðsti hluti fyrrum trésmíðaverkstæðis KHB að Kaupvangi 17, norðan tjaldstæðisins, verður endurbyggður sem aðstaða fyrir tjaldstæðisgesti og eru framkvæmdir þegar hafnar, enda daginn farið að lengja og styttist óðum í tjaldstæðisgestina. Steindór Jónsson hyggst opna tjaldstæðið í byrjun júní. Jafnframt verður gamla tjaldstæðið, vestan Kaupvangs, notað í sumar á meðan það nýja er að gróa upp. Steindór mun jafnframt reka veitingaaðstöðu í norðurhluta Kaupvangs 17 sem stefnt er að verði opnuð nú í maí.


Meðfylgjandi mynd var tekin við undirskrift samningsins og sjást þar þeir Steindór Jónsson og Eiríkur B. Björgvinsson handsala samninginn, ásamt þeim Önnu Jónsdóttur eiginkonu Steindórs og Hilmari Gunnlaugssyni lögmanni og fasteignasala.