Samningur um félagsaðstöðu eldra fólks

Bæjarstjórn Fljótdalshéraðs gerði nýlega samning við Rendita ehf. um kaup á 516 fermetra húsnæði í Miðvangi 6 fyrir félags- og tómstundaaðstöðu fyrir eldra fólk. Áætlanir gera ráð fyrir að húsnæðið verði afhent í febrúar 2008.

Í sama húsi verða íbúðir fyrir eldra fólk. Samningurinn er hluti af uppbyggingu í þjónustu við eldra fólk og mun skapa frekari möguleika til uppbyggingar á öflugara félags- og tómstundastarfi. Í þetta væntanlega húsnæði mun núverandi starfsemi að Miðvangi 22, svo sem tómstundastarf, félagsstarf eldri borgara og dagvistun, flytjast. Samhliða þessum breytingum skapast enn frekari möguleikar til eflingar á starfsemi Félags eldri borgara á Fljótdalshéraði.

Rannsóknir hafa sýnt að 30-40% 67 ára og eldri nota félags- og tómstundastarfs eldri borgara og að framboð og þátttaka í slíku starfi er mikilvægur þáttur í að viðhalda sjálfstæðri búsetu og eigin heimilshaldi.