Samningur endurnýjaður við Þjónustusamfélagið

Nýr samstarfssamingur undirritaður.
Nýr samstarfssamingur undirritaður.

Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og Ívar Ingimarsson formaður Þjónustusamfélagsins á Héraði undirrituðu nýjan samstarfssamning milli sveitarfélagsins og Þjónustusamfélagsins, um áframhaldandi samstarf vegna markaðsmála, þann 15. janúar sl.

Þjónustusamfélagið á Héraði er félag verslunar- og þjónustuaðila á Fljótsdalshéraði og í Fljótsdalshreppi. Félagið hefur það að markmiði að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum verslunar, ferðaþjónustu og þjónustufyrirtækja á Héraði, en tæplega 60 fyrirtæki, félög og stofnanir eru aðilar að Þjónustusamfélaginu.

Þjónustusamfélagið á Héraði var stofnað árið 2013 af hópi fyrirtækja á Héraði og síðan þá hefur fjöldi aðildarfélaga vaxið stöðugt. Stjórn og starfsmaður Þjónustusamfélagsins vinna markvisst að því að styrkja ímynd Fljótsdalshéraðs, í náinni samvinnu við sveitarfélagið. Þar að auki beitir félagið sér fyrir aukinni innviðauppbyggingu svæðisins sem skili sér í bættu viðskiptaumhverfi fyrirtækja á Fljótsdalshéraði.

Stærstu verkefni félagsins eru rekstur vefsíðunnar visitegilsstadir.is, uppsetning skilta og merkinga um Egilsstaði og nágrenni fyrir ferðafólk og útgáfa á öðru tengdu markaðsefni.
Félagið hefur einnig unnið náið með fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði að innri markaðssetningu og viðburðum á svæðinu fyrir heimafólk og þeirra nærsamfélag.

Áframhaldandi samstarf Þjónustusamfélagsins og Fljótsdalshéraðs staðfestir vilja beggja aðila til að halda áfram uppbyggingu og jákvæðri þróun svæðisins fyrir heimamenn og aðkomufólk.