Laugardaginn 28. apríl munu Geir H. Haarde forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar og Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, undirrita samninga um stofnun Þekkingarseturs á Egilsstöðum ehf.
Með samningunum skuldbindur ríkisvaldið sig til að leggja núverandi húsnæði á Vonarlandi sem hlutafjáreign, að verðmæti 125 milljónir króna, í einkahlutafélagið Þekkingarsetur á Egilsstöðum ehf. Markmiðið er jafnframt að Fljótsdalshérað og tengdir aðilar leggi félaginu til sömu upphæð á næstu tíu árum. Starfssemi félagsins verður hagnaðarlaus með almenningsheill að markmiði.
Í húsnæði þekkingarsetursins verða undir einu þaki helstu rannsóknar- og þjónustustofnanir á Egilsstöðum og víðar, alls á annan tug stofnana, auk þess sem stefnt er að því að þar byggist upp staðbundið háskólanám. Megin tilgangurinn er því að efla vísinda- og rannsóknarstarfssemi á svæðinu og vera miðstöð sérfræðiþjónustu af ýmsu tagi, stuðla að aukinni nýsköpunarstarfssemi í atvinnulífinu og skapa skilyrði fyrir frekari þróun þekkingarsamfélags á Austurlandi. Á þessu ári verður hafist handa við byggingu 1800 fm húsnæðis undir starfssemina, en alls verður húsnæðið um 3000 fm þegar núverandi húsnæði á Vonarlandi er talið með.
Stofnun þekkingarsetursins er jafnframt liður í stefnu Fljótsdalshéraðs sem hefur að markmiði að þróa áfram sveitarfélagið sem þekkingarsamfélag og efla það sem landshlutamiðstöð.
Undirritunin mun fara fram kl. 14.00, laugardaginn 28. apríl að Vonarlandi, Tjarnarbraut 39e, á Egilsstöðum.