Samningar undirritaðir um þekkingarsetur

Laugardaginn 28. apríl munu Geir H. Haarde forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar og Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, undirrita samninga um stofnun Þekkingarseturs á Egilsstöðum ehf.

Með samningunum skuldbindur ríkisvaldið sig til að leggja núverandi húsnæði á Vonarlandi sem hlutafjáreign, að verðmæti 125 milljónir króna, í einkahlutafélagið Þekkingarsetur á Egilsstöðum ehf. Markmiðið er jafnframt að Fljótsdalshérað og tengdir aðilar leggi félaginu til sömu upphæð á næstu tíu árum. Starfssemi félagsins verður hagnaðarlaus með almenningsheill að markmiði.

Í húsnæði þekkingarsetursins verða undir einu þaki helstu rannsóknar- og þjónustustofnanir á Egilsstöðum og víðar, alls á annan tug stofnana, auk þess sem stefnt er að því að þar byggist upp staðbundið háskólanám. Megin tilgangurinn er því að efla vísinda- og rannsóknarstarfssemi á svæðinu og vera miðstöð sérfræðiþjónustu af ýmsu tagi, stuðla að aukinni nýsköpunarstarfssemi í atvinnulífinu og skapa skilyrði fyrir frekari þróun þekkingarsamfélags á Austurlandi. Á þessu ári verður hafist handa við byggingu 1800 fm húsnæðis undir starfssemina, en alls verður húsnæðið um 3000 fm þegar núverandi húsnæði á Vonarlandi er talið með.

Stofnun þekkingarsetursins er jafnframt liður í stefnu Fljótsdalshéraðs sem hefur að markmiði að þróa áfram sveitarfélagið sem þekkingarsamfélag og efla það sem landshlutamiðstöð.


Undirritunin mun fara fram kl. 14.00, laugardaginn 28. apríl að Vonarlandi, Tjarnarbraut 39e, á Egilsstöðum.