Samningar gerðir við íþróttafélög

Í dag föstudaginn 22. janúar voru þrír samningar undirritaðir við íþróttahreyfinguna á Fljótsdalshéraði. Í fyrsta lagi er um að ræða samstarfssamning milli Íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs.  Íþróttafélagið Höttur ber hitann og þungan af því íþróttastarfi sem fram fer í sveitarfélaginu og leikur því einnig stórt hlutverk í mikilvægu forvarnarstarfi, ekki síst meðal ungs fólks. Stjórnir Hattar og deildanna og allir þeir fjölmörgu foreldrar og aðrir sem leggja félaginu lið með sjálfboðnu starfi eiga þakkir skilið fyrir sitt framlag til þessa starfs.

Þá var undirritaður samningur um rekstur og viðhald vallarsvæða í eigu eða umsjá Fljótsdalshéraðs og er gerður við Hött rekstrarfélag ehf. Samningurinn fjallar um rekstur og viðhald vallarsvæðanna Fellavallar, Vilhjálmsvallar, Selskógar og Eiðavallar, fasteignar að Skógarlöndum 4 og búningsaðstöðuna við Fellavöll.

Loks var undirritaður samningur milli Fljótsdalshéraðs og Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs að Ekkjufelli sem snýr að rekstri og uppbygginu íþróttamannvirkja klúbbsins. Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs skuldbindur sig til að vinna að því að tryggja stúlkum og drengjum, konum og körlum jöfn tækifæri til að stunda íþróttina og við stefnumótun og í þjálfun skal þannig tryggt að kynin hafi jafnan aðgang að þáttum eins og kennslu/þjálfun, tíma og upplýsingum.

Allir þessir samningar byggja á eldri samningum við félögin, sem runnu út um síðustu áramót.

Á myndinni má sjá Eirík B. Björgvinsson, Óttar Ármannsson, Davíð Þór Sigurðarson og Sigurþór Sigurðsson