- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Skógardagurinn mikli verður haldinn í 12. sinn í Hallormsstaðaskógi, laugardaginn 24. júní í sumar. Í ár mun Félag skógarbænda á Austurlandi í samstarfi við Fljótsdalshérað standa fyrir samkeppni um listaverk úr trjáviði og hefur verið auglýst eftir þátttakendum í hana. Fyrirhugað er að verkin verði fyrst til sýnis á Skógardeginum mikla þar sem veittar verða viðurkenningar fyrir þau þrjú verk sem gestir hátíðarinnar velja áhugaverðust. Fyrstu verðlaun eru 150.000 krónur en 50.000 krónur fyrir önnur og þriðju verðlaun. Ætlunin er að trjálistaverkin verði til sýnis á opnu svæði á Egilsstöðum út sumarið 2017 og því er æskilegt að þau geti staðið úti.
Skilafrestur á listaverkunum er til 21. júní og skulu þau send til:
Fljótsdalshérað, Lyngási 12, 700 Egilsstaðir, merkt Listaverk úr trjáviði.
Nánari upplýsingar um samkeppnina veitir Óðinn Gunnar í síma 860 2905.
Þá er vakin athygli á því að dagana 1.-5. júní. verður haldin vinnustofa á Vallanesi sem kallast Stefnumót við skógarsamfélag. Vinnustofan fjallar um skógarmenningu, skóginn sem rannsóknarsvæði, tréð sem kennara, gamla handverkshefð, lágtækni í vinnslu viðarins, grófsmíðuð húsgögn, skúlptúra og hönnun úr trénu sem verður á vegi þínum.
Vinnustofan verður undir leiðsögn þýska listamannsins Thomas Rappaport. Thomas er listgreinakennari að mennt og prófessor í fullorðinsfræðslu ásamt því að vera listamaður með áherslu á stóra viðar- og ísskúlptúra. Hann hefur dvalið þrjú síðustu ár að hluta á Íslandi og unnið að list sinni í rekavið af norðausturhorninu og einnig í lerki úr Hallormsstaðaskógi.
Vinnustofan fer fram í Vallanesi 1.–5. júní. Hægt er að skrá sig á netfangið lara@make.is eða í síma 470 3806 / 899 4373. Þátttökugjald er 35.000 krónur. Það er SAM-félagið sem stendur fyrir námskeiðinu.