Samið um uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar

Björn Ingimarsson bæjarstjóri og Davíð Þór Sigurðarsson, formaður Hattar, handsala samninginn í Tjar…
Björn Ingimarsson bæjarstjóri og Davíð Þór Sigurðarsson, formaður Hattar, handsala samninginn í Tjarnargarðinum á þjóðhátíðardaginn.

Samningur á milli Fljótsdalshéraðs og Íþróttafélagsins Hattar um uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum var undirritaður 17. júní í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum. Á sama stað fóru fram hátíðarhöld vegna Þjóðhátíðardagsins og strax að undirritun lokinni var boðið upp á fimleikasýningu fimleikadeildar Hattar.

Samningurinn sem undirritaður var gerir ráð fyrir að byggð verði aðstaða fyrir fimleikaiðkun norðan megin við núverandi íþróttahús á Egilsstöðum en jafnframt gert ráð fyrir að þar verði rými fyrir frjálsíþróttaiðkun t.d. með hlaupabrautum. Þá gerir samningurinn ráð fyrir gerð búningsherbergja og bættri starfsmannaaðstöðu.

Það er Íþróttafélagið Höttur sem sér um framkvæmdir við uppbyggingu aðstöðunnar, en gert er ráð fyrir að Fljótsdalshérað greiði fyrir framkvæmdina með árlegum greiðslum til ársins 2020 og taki þá við verkinu. Samkvæmt samningi er gert ráð fyrir að uppbyggingin kosti rúmar 200 milljónir.

Uppbygging við íþróttamiðstöðina er löngu tímabær og hefur verið á borði sveitarfélagsins mörg undanfarin ár. Íþróttasalurinn er í fullri notkun frá klukkan sjö á morgnana til hálf tólf á kvöldin allan veturinn og komast færri þar að en vilja. Með nýjum sal batnar ekki aðeins aðstaða til fimleikaiðkunar heldur losnar verulega um tíma til afnota í núverandi íþróttasal. Þá verður til aðstaða sem gefur þeim sem stunda frjálsar íþróttir tækifæri til að stunda greinina allt árið. Því má segja að aðstaða til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu verði til fyrirmyndar og styrki enn frekar það mikla og góða starf sem Íþróttafélagið Höttur heldur úti.

Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar, segir að „þetta skref sé ánægjulegt í ljósi þess að íþróttahreyfingin hefur kallað eftir bættri aðstöðu innanhúss til að styrkja enn frekar það mikla og góða starf sem haldið er úti. Íþróttafélagið Höttur sé ein af þeim mikilvægu stoðum sem styrkja búsetu íbúa á Fljótsdalshéraði, en hjá félaginu er haldið úti átta mismunandi íþróttagreinum. Næstu skref í þessu verkefni er að klára endanlega hönnun aðstöðunnar og leita til okkar bakhjarla sem eru bæði fyrirtæki og einstaklingar. Segja má að þetta verkefni sé eitt stórt samfélagsverkefni þar sem margar hendur þurfa að leggja sitt af mörkum til að láta þetta verða að veruleika.“