Samið um sorpurðun á Tjarnarlandi

Skrifað undir samning um urðunarsvæði fyrir Fljótsdalshérað við Eystein Einarsson bónda á Tjarnarlandi á laugardaginn var. Samningurinn er til 90 ára og er stærð leigulandsins 26,6 hektarar. Innan þess svæðis er það svæði sem áður hefur verið nýtt til urðunar fyrir sveitarfélagið. Jafnframt var framlengdur gildandi samningur við Eystein um förgun úrgangs og umsjón með urðunarsvæðinu, til ársloka 2017.

Forsenda samkomulagsins er að starfsleyfi fáist fyrir urðunarstaðinn, þegar núgildandi bráðabirgðaleyfi rennur út.

Nú eru í vinnslu deiliskipulag svæðisins og einnig er vinna við umhverfismat þess komin af stað. Það er langt og tímafrekt ferli og ekki gert ráð fyrir að því ljúki fyrr en á árinu 2013.

Með undirritun samningsins er það von manna að sveitarfélagið hafi tryggt sér gott urðunarland til langs tíma, sem uppfyllt geti öll skilyrði um frágang og mengunarvarnir sem í gildi eru. Sjá má matsslýsingu vegna urðunarstaðsins hér.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Björn Ingimarsson bæjarstjóri og Eysteinn Einarsson bóndi undirrituðu samninginn.