Samið um fræðsluáætlun fyrir ófaglærða í skólum

Helga Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Fljótsdalshéraðs, og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Au…
Helga Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Fljótsdalshéraðs, og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, undirrituðu samninginn.

Á föstudaginn var undirritaður samningur um verkefnið „Fræðslustjóra að láni"  milli Sveitamenntar, Mannauðssjóðs Samflotsins, Austurbrúar og Fljótsdalshéraðs um gerð fræðsluáætlunar fyrir almenna starfsmenn í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins. Undirbúningur verkefnisins stendur yfir, reiknað er með að fræðsluáætlun liggi fyrir á vormánuðum.

Austurbrú hefur undanfarin misseri unnið að gerð fræðsluáætlana og hefur um árabil boðið upp á sérsniðin námskeið fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Í þessu verkefni vinna ráðgjafar Austurbrúar nýja fræðsluáætlun og styðjast við svonefnda „Markviss“-aðferðafræði þar sem unnið er kerfisbundið að starfsmannaþróun og gerður samningur um „fræðslustjóra að láni“ sem tekur út fræðsluþörf viðskiptavinarins.

„Árangur af þessari aðferðafræði er ótvíræður,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. „Svona ferli eflir starfsmenn, gefur stjórnendum betri yfirsýn yfir færni starfsmanna, þetta auðveldar lausnir ýmissa vandamála sem koma upp í fyrirtækjum og leiðir til opnari samskipta á milli starfsmanna.“

Það eru fræðslusjóðirnir Sveitamennt og Mannauðssjóður Samflotsins sem fjármagna verkefnið en þetta er fyrsta „fræðslustjóra“ verkefnið sem þessir sjóðir vinna saman. Fræðslusjóðurinn Sveitamennt hefur hins vegar boðið upp á Fræðslustjóra að láni til sveitarfélaga í þó nokkur ár.

Sem fyrr segir stendur undirbúningur yfir og reiknað er með að fræðsluáætlun liggi fyrir í vor sem hrint verður svo í framkvæmd næsta haust.