- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Laugardaginn 8. júní verður haldinn Samfélagsdagur á Héraði. Markmiðið með honum er að virkja íbúa sveitarfélagsins til þátttöku í sjálfboðaliðaverkefnum. Um leið er vonast til að dagurinn geti orðið skemmtilegur og árangursríkur.
Boðið verður upp á fjögur verkefni sem íbúar eru hvattir til að taka þátt í:
Friðarreitur í Skjólgarðinum (Fyrir aftan pósthúsið)
Þann 26. júní nk. á Friðarhlaup leið um Egilsstaði og af því tilefni verður plantað friðartré í Skjólgarðinum. Verkefnið á samfélagsdaginn felst í því að stinga upp reit (um 10 m2) og planta í hann plöntum sem mynda (auk trésins sem plantað verður þann 26. júní) friðarreit. Ef þátttaka verður næg verður ráðist í önnur verkefni í Skjólgarðinum.
Mæting er við leiktækin í Skjólgarðinum kl. 13.
Berjagarðar utan við Ranavað og á milli Fjóluhvamms og Lagarbrautar
Fyrirhugað er að koma upp svæðum með ýmsum gerðum berjarunna þar sem íbúar geta í framtíðinni tínt ber í nágrenni þéttbýliskjarnanna. Stinga þarf upp litla reiti og planta þar berjarunnum.
Mæting er við Skólagarðana og innst í Fjóluhvamm kl. 13.
Gróðursetning í Selskógi
Í ljósi þess hversu illa Selskógurinn fór í maðkaplágu sem geysaði fyrir nokkrum árum hefur verið brugðist við með því að planta birki í eyður sem myndast hafa í skóginum. Nú gefst íbúum kostur á að leggja sitt af mörkum við að byggja Selskóginn upp.
Mæting er við skemmuna í Vémörk kl. 11.
Uppsetning reiðhjóla torfærubrautar við knattspyrnuvöllinn í Mánatröð
Útbúa á torfærubraut með stökkpöllum, brekkum o.fl. Hlutverk þátttakenda á Samfélagsdaginn er að flytja til mold innan svæðisins til að búa til stökkpalla o.fl. til að fullgera brautina.
Mæting er á knattspyrnuvellinum í Mánatröð kl. 11.
Íbúar eru hvattir til að taka þátt í þessum verkefnum eða skipuleggja sín eigin verkefni, sem t.d. geta verið tiltekt í kringum lóðir, og skrá sig á netfangið freyr@egilsstadir.is.
Myndin er frá Samfélagsdeginum 2012 og tekin í Skjólgarðinum.