Samfélagsdagur á Hérað – hrein upplifun

Samfélagsdagur á Héraði verður haldinn 26. maí. Markmiðið með honum er að virkja íbúa sveitarfélagsins til þátttöku í sjálfboðaliðaverkefnum. Um leið er vonast til að dagurinn geti orðið skemmtilegur og árangursríkur, skapað samstöðu og stemmningu meðal íbúanna og skilað öllum betra samfélagi. Fyrirhugað er að sambærilegur dagur verði einnig haldinn í Fjarðabyggð og á Seyðisfirði. Þá hefur Alcoa ákveðið að á samfélagsdaginn muni starfsfólk á þess vegum vinna eitt til tvö verkefni í sveitarfélaginu sem ákveðin verða í samstarfi við starfsfólk fyrirtækisins.

Á Fljótsdalshéraði hefur verið leitað til fjölda félagasamtaka um samstarf um verkefnið og er gert ráð fyrir að Samfélagsdagurinn verði þannig kynntur sem sameiginlegt verkefni allra aðila sem koma að því. Félagasamtökum hefur nú þegar verið gefinn kostur á að koma með tillögur að verkefnum sem framkvæmd væru þennan dag. Verkefnin geta í meginatriðum verið tvennskonar, annars vegar með aðkomu sveitarfélagsins að þeim og hins vegar eingöngu á vegum félaganna eða íbúa og þá án nokkurrar aðkomu sveitarfélagsins. Verkefnin sem til greina kæmi að vinna geta verið margvísleg. Umhverfistengd verkefni á nærsvæði eða félagssvæði viðkomandi eru kannski líklegust, en þó er allt mögulegt í þessu. Aðkoma sveitarfélagsins að einstökum verkefnum getur verið í formi þess að það leggur til efni, s.s. mold og möl, þökur, tré og runna. Sveitarfélagið kæmi með þessum hætti eingöngu að verkefnum sem eðlilegt má telja að sveitarfélagið eigi að koma að, s.s. á opnum svæðum. Gert er ráð fyrir að verkefnin sem um ræðir verði að jafnaði það viðráðanleg að þau taki ekki nema 1 – 3 klukkutíma að framkvæma, þannig að líklegt sé að sem flestir geti gefið sér tíma til þátttöku, og að verkefnin verði að jafnaði unnin á tímabilinu frá kl. 10.00 – 14.00 á samfélagsdaginn. Ef vel viðrar þennan dag er fyrirhugað að bjóða upp á grillveislu að loknum góðum vinnudegi.

Vonast eftir góðri þátttöku félagasamtaka og vinahópa

Vonast er til að þau mörgu og góðu félagasamtök sem starfa í sveitarfélaginu taki sem flest þátt í þessu samstarfi og virki félagsmenn sína, sem og aðra íbúa til þátttöku í einstökum verkefnum. En gert er ráð fyrir að félagasamtökin, ein sér eða saman með öðrum félögum, „eigi“ viss verkefni og bera þannig ákveðna ábyrgð á þeim, t.d. með því að vera í forsvari fyrir þau og virkja félagsmenn og aðra til þátttöku, eins og fyrr var nefnt. Útbúin verður sérstök vefsíða á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem hverju verkefni er lýst í stuttu máli, mynd sýnd af viðkomandi stað, gerð grein fyrir ábyrgðaraðila / „eiganda“ verkefnisins, auk þess sem íbúar sveitarfélagsins geta þar skráð sig til þátttöku í einhverju verkefnanna og þannig tekið þátt í skemmtilegum degi. Þau félagasamtök sem ekki hafa enn skráð sig til þátttöku og lagt fram tillögu að verkefni sem þau vilja koma að, eru hvött til að gera það sem allra fyrst. Ef vinuhópar, íbúar í ákveðinni götu eða aðrir hópar vilja vera með á Samfélagsdaginn, og þannig sameinast um eitthvert þarfaverk sem þeir vilja hrinda í framkvæmd, þá eru þeir einnig hvattir til að skrá sig og fyrirhugað verkefni, með því að hafa samband við starfsmann Samfélagsdagsins, Ásdísi Jóhannsdóttur, á netfangið samfelagsdagur@fljotsdalsherad.is eða í síma 898 7432.

Fyrirtækin geta líka verið með

Loks má benda á að Samfélagsdagurinn á Héraði er kjörið tækifæri fyrir eigendur og starfsfólk fyrirtækja í sveitarfélaginu til að fylkja liði saman um verkefni sem t.d. gætu snúist um fegrun eða tiltekt á lóðum fyrirtækja og stofnana. Af nógu er að taka fyrir alla víðsvegar um Fljótsdalshérað. Vonandi flykkjast meðlimir félagasamtaka vinahópar, eigendur og starfsfólk fyrirtækja út á Samfélagsdaginn 26. maí og gera hann að eftirminnilegum degi.