Samband austfirskra kvenna 90 ára

Afmælisfundi SAK lauk með heimsókn í Hjaltastaðakirkju þar sem flutt var tónlist eftir konur úr Hjal…
Afmælisfundi SAK lauk með heimsókn í Hjaltastaðakirkju þar sem flutt var tónlist eftir konur úr Hjaltastaðaþinghá og gestir voru fræddir um sögu og starfsemi kirkjunnar.

Samband austfirskra kvenna, SAK, var stofnað 16. júlí 1927 og fagnar því 90 ára afmæli á þessu ári. Þessara tímamóta var minnst á aðalfundi sambandsins sem haldinn var í Hjaltalundi í Hjaltastaðaþinghá, laugardaginn 21. október.

Það er venja að aðalfundir sambandsins séu haldnir til skiptis hjá félögum á sambandsvæðinu og nú var komið að kvenfélaginu Björk í Hjaltastaðaþinghá.
Starfsemi SAK hefur verið misöflug á undanförnum árum en mikill hugur var í þeim 23 konum sem komnar voru saman á afmælisfundinum í Hjaltalundi að tryggja áframhaldandi öflugt starf sambandsins.

Forseti KÍ, Guðrún Þórðardóttir, var gestur fundarins og sagði hún m.a. frá áhugaverðri BS ritgerð frá viðskiptadeild Háskóla Íslands frá því í júní sl. „Kvenfélögin og samfélagið“ , þar sem framlag kvenfélagskvenna til samfélagsins er skoðað og metið.

Bjarkarkonur sáu til þess að fundurinn varð sú afmælisveisla sem 90 ára afmælisbarni sæmir. Fundinum lauk með heimsókn í Hjaltastaðakirkju þar sem flutt var tónlist eftir konur úr Hjaltastaðaþinghá og gestir fræddir um sögu og starfsemi kirkjunnar.

Formaður stjórnar SAK er Margrét Samsonardóttir, félagi í kvenfélaginu Bláklukkum á Egilsstöðum.