SAFT netöryggisfræðsla fyrir foreldra nemenda í 6. og 7. bekk

Foreldrum nemenda í 6. og 7. bekk grunnskóla á Fljótsdalshéraði boðið upp á netöryggisfræðslu á mánu…
Foreldrum nemenda í 6. og 7. bekk grunnskóla á Fljótsdalshéraði boðið upp á netöryggisfræðslu á mánudagsmorgun.

Mánudaginn 8. október klukkan 9 verður foreldrum nemenda í 6. og 7. bekk grunnskóla á Fljótsdalshéraði boðið upp á netöryggisfræðslu. SAFT, vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi, heldur námskeiðið.

Rannsóknir sýna að á grunnskólaaldri er netnotkun orðin hluti af daglegu lífi. Mörg börn eiga snjalltæki sem býður þeim upp á að vera nettengd allan sólarhringinn alla daga vikunnar auk þess sem félagslíf barna fer að stórum hluta fram á netinu. Hins vegar fá þau mis mikla leiðsögn heima fyrir um hvernig umgangast beri netið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Í fræðsluerindinu fá foreldrar fræðslu um meðferð persónuupplýsinga, alvarleika rafræns eineltis og óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu, farið verður yfir slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem hvatt er til jákvæðrar, gagnrýninnar og ábyrgrar netnotkunar. Fræðslan er lifandi og hvatt er til þátttöku. Farið verður yfir helstu heilræði í rafrænu uppeldi og einfaldar öryggisstillingar.

Síðar um daginn fá nemendur þessara bekkja einnig fræðslu um sömu mál og því er kominn góður samræðugrundvöllur fyrir heimilin.

Foreldrar eru hvattir til að gefa sér tíma og mæta á fræðslufundinn sem haldinn er í fyrirlestarsal Egilsstaðaskóla.