- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fulltrúar frá SAFT, vakningarátaki um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga, bjóða foreldrum barna á miðstigi grunnskóla upp á fræðsluerindi í Egilsstaðaskóla klukkan 17:30, miðvikudaginn 24. maí.
Í fræðsluerindinu fá foreldrar fræðslu um birtingarmyndir rafræns eineltis og alvarlegar afleiðingar óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu. Farið er yfir hvað beri að varast í samskiptum við ókunnuga, hvað sé hægt að gera ef grunur vaknar um tilraun til tælingar og hvert sé hægt að leita. Einnig er farið yfir áhrif ofnotkunar á tölvum og neti auk þess sem bent er á leiðir til að koma netnotkun í jákvæðari farveg. Einnig verður fjallað um ýmsar tæknilegar lausnir, eins og síur, öryggisforrit og fleira.
Eru foreldrar barna á miðstigi grunnskóla sérstaklega hvattir til að mæta á fræðsluerindið og láta sig netnotkun barna sinna varða.