Ronja í uppfærslu LME í Sláturhúsinu

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum frumsýnir leikritið Ronja Ræningjadóttir, sem byggt er á sögu Astrid Lindgren, föstudaginn 17. mars klukkan 20:00 í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum. Leikstjóri sýningarinnar er Íris Lind Sævarsdóttir.

Sagan af Ronju Ræningjadóttur gerist í Matthíasarskógi þar sem ræningjaforinginn Matthías, pabbi Ronju ræður ríkjum. Óveðursnótt eina þegar Ronja fæðist, klífur elding Matthíasarkastalann í tvennt og Svartavíti verður til. Ronja er eftirlæti foreldra sinna og alls ræningjaflokksins. Mikil ógn steðjar að ríki Matthíasar þegar að Bjarki erkióvinur Matthíasar flytur inn í norðurkastalann hinu megin við Svartavíti með allan sinn ræningjaflokk. Ronja kemst að því að Bjarki á son sem heitir Birkir, þau verða miklir vinir í óþökk foreldra sinna. Matthías afneitar dóttur sinni og Birkir og Ronja flýja út í Matthíasarskóg. Skógurinn er fullur af ævintýrum, rassálfum og öðrum furðuverum en líka hættum sem Ronja og Birkir verða að vara sig á. Sagan af Ronju Ræningjadóttur er saga um vináttu og hugrekki en þó fyrst og fremst kærleika. Leikgerð sögunnar gerði Annina Paasonen og þýðingu annaðist Einar Njálsson.

Astrid Lindgren var einn ástsælasti barnabókahöfundur síðustu aldar og er sýningin því tilvalin og skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Hópurinn leggur mikið uppúr því að skapa heillandi, heilstæðan og töfrandi heim fyrir áhorfandann, þegar áhorfandinn gengur inn í salinn á honum að líða eins og hann sé staddur í Matthíasarskógi en þar  spila saman rýmið, leikmyndin, hljóð, ljós og lykt. En rýmið sem sýnt verður í er Frystiklefinn í Sláturhúsinu og er hann einstaklega hentugur, þökk sé hráum veggjum og súlum sem minna einna helst á kastala.

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum eða LME var stofnað árið 1988 og hefur síðan þá sett upp fjöldamargar leiksýningar. Félagið skipar stóran sess í félagslífi nemenda og eru það margir sem koma að leiksýningunum, leikarar, tæknimenn, sminkur, leikmuna-, búninga- og sviðsmyndafólk og svona mætti lengi telja. Hópur nemenda skólans hefur nú unnið hörðum höndum í nokkrar vikur að sýningunni sem verður frumsýnd 17. mars, eins og fyrr segir.

Aðrar sýningar á Ronju Ræningjadóttur verða sem hér segir:
Sunnudaginn 19. mars kl. 14:00 og 18:00
Miðvikudaginn 22. mars kl. 19:30
Fimmtudaginn 23. mars kl. 19:30
Laugardaginn 25. mars kl. 17:00
Sunnudaginn 26. mars kl. 14:00 og 18:00
Miðvikudaginn 29. mars kl. 19:30
Fimmtudaginn 30. mars kl. 19:30
Lokasýning föstudaginn 31. mars kl. 20:00

Miðapantanir skal gera í gegnum netfangið LME@ME.is
Miðaverð er kr. 2.500. Athuga þarf að takmarkað sætaframboð er á sýningarnar.