Rokkbúðir fyrir stelpur í Sláturhúsinu

Þátttakendum í rokkbúðunum gefst kostur á að læra á hljóðfæri, fara í vinnusmiðjur, hópeflisleiki og…
Þátttakendum í rokkbúðunum gefst kostur á að læra á hljóðfæri, fara í vinnusmiðjur, hópeflisleiki og gera þemaverkefn

Rokkbúðir fyrir 12 til 16 ára verða haldnar í fyrsta sinn á Egilsstöðum, í samstarfi við námskeiðaröð Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, ,,Stelpur skapa”. Búðirnar fara fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum helgina 27.-29. apríl. Á þessum þremur dögum gefst þátttakendum kostur á að læra á hljóðfæri, fara í vinnusmiðjur, hópeflisleiki og gera þemaverkefni. Síðast en ekki síst að semja lag saman í hljómsveit og flytja með pompi og prakt á lokatónleikum fyrir fjölskyldu og vini.

Alls hafa yfir 400 stelpur, konur, trans og kynsegin einstaklingar tekið þátt í rokkbúðum Stelpur rokka! síðastliðin 5 ár og myndað yfir 80 hljómsveitir. Á meðal þeirra er hljómsveitin Ateria sem vann Músíktilraunir 2018 en yngsti meðlimur þeirrar hljómsveitar er 12 ára gömul. Í Rokkbúðunum öðlast þátttakendur aukið sjálfstraust, frumkvæði og þor með því að starfa saman og virkja eigin sköpunarhæfileika. Með starfinu er verið að byggja upp mikilvæga fagþekkingu og stefna Stelpur rokka að því markmiði að verða leiðandi afl í jafnréttismiðuðu tómstundastarfi á Íslandi.

Námskeiðið stendur yfir frá klukkan 13:30 til 18:00 á föstudeginum 27. apríl og frá 10:00 til 18:00 laugardag og sunnudag og lýkur með tónleikum í Frystiklefanum.

Viðmiðunarþátttökugjald 20.000 krónur. Frí og niðurgreidd pláss eru í boði.

Engin hljóðfærakunnátta er nauðsynleg til að skrá þátttöku.

Þátttökuskráning í mmf@egilsstadir.is eða 897-9479.