Reyðfirðingar sigruðu í Legókeppni en Brúarásstelpur voru með besta rannsóknarverkefnið

Liðið Einn + níu úr Grunnskóla Reyðarfjarðar sigraði í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL), sem fram fór í Háskólabíói nýlega. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt á heimsmeistaramóti FIRST LEGO League í St. Louis í Bandaríkjunum í vor.

Metfjöldi liða tók þátt í keppninni að þessu sinni, eða 18 lið. Í hverju liði voru á bilinu 6-10 manns á aldrinum 9-16 ára og þátttakendur því samtals hátt í 200. Þeir hafa undirbúið sig að kappi fyrir keppnina allt frá því að þátttökugögn voru send út í október síðastliðnum.

Keppninni er skipt í nokkra hluta þar sem reynir á margs konar hæfileika enda markmið keppninnar að efla færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni. Keppninni er valið ákveðið þema ár hvert og að þessu sinni var þemað „Skóli framtíðarinnar“. Þegar stigin í keppninni höfðu verið tekin saman reyndist liðið Einn + níu sigurvegari, en það er skipað níu stúlkum og einum dreng úr Grunnskóla Reyðarfjarðar.

Aðrar viðurkenningar hlutu:

Besta dagbókin: Gemsarnir úr Grunnskóla Hornafjarðar

Besta lausn í hönnun og forritun vélmennis: LegóFásk úr Gunnskóla Fáskrúðsfjarðar

Vélmennakapphlaup: Lið Breiðholtsskóla

Besta rannsóknaverkefnið: Nafnlausar úr Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði

Allir þátttakendur í keppninni fengu enn fremur FLL-medalíu í viðurkenningarskyni.

Þetta var í níunda sinn sem FIRST LEGO League tækni- og hönnunarkeppnin var haldin. Háskóli Íslands heldur utan um keppnina og meginbakhjarl er Nýherji.

Stytt frétt af vef Háskóla Íslands – nánar um keppnina hér, þar má einnig sjá fleiri myndir.