Requiem eftir Faure og fleiri verk á stórtónleikum

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Kirkju- og menningarmiðstöðin í Fjarðabyggð standa saman að tónleikum laugardaginn 3. nóvember.  Kórar sem taka þátt í þessum flutningi eru kór Glerárkirkju, kór Egilsstaðakirkju, kór Fjarðabyggðar ásamt söngfólki á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði.

Tónleikarnir verða haldnir í Kirkju- og menningarmiðstöðinnni á Eskifirði, laugardaginn 3. nóvember kl. 17.00. 
Þetta er í þriðja skipti sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands  og Austfirðingar sameinast um tónleikahald, en haustið 2005 var undirrituð viljayfirlýsing til fimm ára milli SN og Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar þess efnis að vinna að einu stóru samstarfsverkefni á ári með aðaláherslu á flutning tónverka fyrir kór og hljómsveit.  Kórar sem taka þátt í þessum flutningi eru Kór Glerárkirkju og kór af Austurlandi sem er samsettur úr Kór Egilsstaðakirkju, Kór Fjarðabyggðar og söngfólki á  Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði. Einleikari er Gillian Haworth, einsöngvarar eru Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Herbjörn Þórðarson en  stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Á þessum tónleikum verður tekið til flutnings Requiem, Sálumessa op. 48 eftir Gabriel Fauré, Pavane fyrir strengi og hörpu eftir Maurice Ravele og konsert fyrir óbó og strengi eftir Tomaso Albinoni. 
Sálumessa Garbriels Faurés er með þekktustu verkum hans og hefur notið ómældra vinsælda frá því hún var frumflutt árið 1888. Hún er hefðbundin í sniði en ber höfundi sínum glöggt vitni um vandvirkni og næmi  fyrir fyrir hinum ýmsu blæbrigðum tónmálsins. Má í því sambandi nefna einu fegurstu aríu sálumessunnar, Pie Jesu, samið fyrir drengjasópran, sem hljómar eins og ómur engils af himnum ofan.
Pavane eftir M. Ravel var upphaflega samið fyrir einleikspíanó og er frá árinu 1899. Ellefu árum síðar útsetti Ravel verkið fyrir hljómsveit og hefur það í gegnum tíðina notið mikilla vinsælda í tónleikasölum heimsins.  Einnig hefur verkið verið útsett fyri hörpu og strengi og verður í þeim búningi flutt á tónleikunum.                                                        

T. Albinoni var afkastamikið tónskáld og er óbókonsert nr. 2 í d-moll eitt af hans þekktari tónsmíðum.  Hann er í þremur köflum og er hægi kaflinn adagio oft verið nefndur annað Adagio hans, en Adagio í g-moll sem hann samdi fyrir orgel og strengi er óumdeilanlega hans þekktasta tónsmíð.                                                                           

Einleikari á óbó er Gillian Haworth en hún lauk námi frá Dartington College of Arts í Devon vorið 1986.  Að loknu námi hóf hún störf við Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og hefur frá árinu 1992 gegnt starfi skólastjóra þar.  Gillian hefur verið  óbóleikari í  Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frá árinu 1993.
Á  tónleikunum á Eskifirði verða þau Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Herbjörn Þórðarson einsöngvarar.                                                                                                    

Steinrún lærði söng við Tónlistarskólann á Egilsstöðum og við Tónlistarskólann í Reykjavík.  Árið 2005 söng hún einsöng í óratóríunni Messías eftir G. F. Händel en það var samstarfsverkefni SN og  Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar í Fjarðabyggð.
Herbjörn hefur undanfarin ár verið í söngnámi við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð.  Hann hefur sungið mörg hlutverk í Óperustúdíói Austurlands og sumarið 2006 var hann þátttakandi í Sumaróperunni í Reykjavík.                                                                        
Guðmundur Óli Gunnarsson hefur starfað sem hljómsveitarstjóri með Sinfóníuhljómsveit Íslands, bæði á tónleikum og við upptökur. Einnig hefur hann komið fram sem stjórnandi Kammersveitar Reykjavíkur, Íslensku hljómsveitarinnar og CAPUT. Hann hefur stjórnað frumflutningi verka margra tónskálda, stjórnað óperuuppfærslum svo og kórum og hljómsveitum áhugamanna og nemenda. Guðmundur Óli hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá stofnun hennar.