Rannsóknasetur HÍ sett aftur á fót og Unnur Birna Karlsdóttir ráðin forstöðumaður

Unnur Birna Karlsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á Egilsstöðum.
Unnur Birna Karlsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á Egilsstöðum.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi hefur tekið starfa á ný með ráðningu Unnar Birnu Karlsdóttur í starf forstöðumanns. Þetta kemur fram á vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra HÍ. Starfið var auglýst í lok mars sl. og ákveðið að ráða Unni Birnu að loknu dómnefndar- og valnefndarferli. Með ráðningu forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi er stigið afar mikilvægt skref í þróun starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands um land allt.

Að sögn Sæunnar Stefánsdóttur, forstöðumanns Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, er um að ræða fyrsta skrefið til eflingar starfs rannsóknasetursins á Austurlandi. Þegar sé verið að leggja drög að metnaðarfullum rannsóknaverkefnum og fjármögnun þeirra til að efla starfsemina og draga fleira fólk og nemendur inn í starfið.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands var fyrst sett á fót 2008. Hlé var gert á reglulegri starfsemi síðla árs 2010 vegna aðhaldsaðgerða HÍ í kjölfar kreppunnar en Stofnun rannsóknasetra styrkti nokkur smærri rannsóknaverkefni sem unnin voru á svæðinu ásamt því að veita stuðning til að hægt væri að auka tímabundið þjónustu við nemendur í fjarnámi við HÍ. Frá árinu 2015 hefur verið starfsemi á vegum Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands á Austurlandi með rannsóknaverkefninu „Maður og náttúra“ þar sem hreindýrið og þýðing þess í íslenskri náttúrusýn og menningu er viðfangsefnið. Afrakstri verkefnisins verður m.a. gerð skil í bók sem Sögufélagið mun gefa út á næsta ári.

Starfsstöð Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi er á Egilsstöðum og hefur sveitarfélagið Fljótsdalshérað styrkt starfsemi þess með mikilvægu framlagi.

„Við erum mjög glöð með að rannsóknasetrið hefur tekið til starfa á ný á Egilsstöðum“, segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, „og við hlökkum til að sjá það vaxa og dafna, fræðastarfi og samfélaginu öllu til heilla. Við óskum Unni Birnu einnig til hamingju með ráðninguna.“

Eins og áður sagði hefur Unnur Birna Karlsdóttir verið ráðin forstöðumaður setursins og tekur hún við starfinu 1. júní. Unnur Birna lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2010 en áður hafði hún lokið MA- og BA-prófi í sagnfræði og námi í kennslu- og uppeldisfræði frá Háskóla Íslands. Í doktorsritgerð sinni Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900 – 2008 fjallaði hún um sambands manns og náttúru út frá sjónarhóli og aðferðafræði umhverfissagnfræði. Eftir Unni Birnu liggja þónokkrar fræðigreinar og bókarkaflar og þá hefur hún flutt fjölmarga fyrirlestra um umhverfismál og umhverfissagnfræði. Þá hefur Unnur Birna komið að kennslu við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst.

Unnur Birna hefur frá 2015 verið sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands á Egilsstöðum. Áður gegndi Unnur Birna starfi forstöðumanns Minjasafn Austurlands frá 2012. Unnur Birna hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi sagnfræðinga og safnamanna.

Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er m.a. að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Unni Birnu hjartanlega velkomna til starfa.