Ranglega farið með upplýsingar um leikskólagjöld á Fljótsdalshéraði í frétt ASÍ

Leikskólabörn á Fljótsdalshéraði
Leikskólabörn á Fljótsdalshéraði

Á heimasíðu ASÍ er að venju á þessum árstíma frétt með yfirliti yfir leikskólagjöld á nýbyrjuðu ári hjá fjölmörgum sveitarfélögum. 
Í fréttinni var rangt farið með breytingar á leikskólagjöldum á Fljótsdalshéraði, þar sem m.a. var fullyrt að hækkun sé á fæðisgjöldum í leikskólum um áramót, en hið rétta er að engin hækkun var á fæðisgjöldum.

Auk þess var í texta fréttarinnar talað um að hækkun á leikskólagjöldum á Fljótsdalshéraði sé 4,2% á almennu gjaldi og 5% hjá forgangshópum. Hið rétta er að báðir hópar fengu 2% hækkun á leikskólagjöldum um áramótin, eins og reyndar má lesa í smáu letri í töflunni sem fylgir með fréttinni. Tekið skal fram að nú á mánudagsmorgni er búið að leiðrétta þetta á vef ASÍ.

Auk þess er vert að benda á að allur samanburður á hráum tölum getur verið villandi þegar forsendur og sú þjónusta sem að baki liggur er ekki skilgreind sérstaklega. Þannig getur verið verulegur munur á hversu ung börn eru tekin inn í leikskóla og menntunarstig starfsfólks getur verið mjög mismunandi, en hvoru tveggja hefur víðtæk áhrif á rekstrarkostnað leikskóla. Á Fljótsdalshéraði er stefnt að því að börn komist á leikskóla það ár sem þau verða ársgömul ef þau eru fædd fyrir 1. september og við höfum á að skipa vel menntuðum og reyndum starfsmönnum í öllum leikskólum sveitarfélagsins.