Rafrettur og ráðleggingar landlæknis

Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um rafrettur og rafrettuvökva upp á síðkastið. Er rétt að árétta ábendingar Embættis landlæknis um að börn og ungmenni sem og barnshafandi konur eiga aldrei að nota rafrettur eða tengdar vörur.

Aukin notkun rafretta meðal ungmenna veldur áhyggjum þar sem áhrif þeirra til lengri tíma eru óljós og í nýlegum rannsóknum hafa komið fram vísbendingar um að þeir sem nota rafrettur séu líklegri en aðrir til að fara að nota tóbak í framhaldinu. Það er þannig þörf á rannsóknum á langtíma áhrifum rafretta.
Lög um rafrettir tóku gildi 1. mars síðastliðinn en markmið þeirra er að tryggja gæði og öryggi rafretta og rafrettuvökva.
Í ljósi þess að þekkingu er áfátt hvað varðar rafrettur og í ljósi vaxandi notkunar hjá börnum og unglingum tekur landlæknir eftirfarandi fram, meðal annars:

  • Börn eiga ekki að nota rafrettur, hvaða nöfnum sem þær nefnast og varar landlæknir sterklega við því. Vitað er að fjöldi barna hefur prófað rafrettur og umtalsverður hluti notar þær að staðaldri, eða um 10% ungmenna í 10. bekk. Kannanir gefa til kynna að hlutfall barna sem notar rafrettur hafi farið hratt hækkandi undanfarin ár. Foreldrar eru hvattir til að ræða þetta við börn sín.
  • Skólastjórnendur og kennarar eru hvattir til að framfylgja banni við notkun rafretta á skólalóðum.
  • Þeir sem velja að nota rafrettur eru hvattir til að kaupa tæki og efni einungis af viðurkenndum söluaðilum. Hámarksstyrkleiki nikótínvökva er lögum samkvæmt 20 mg/ml og notendur rafretta sterklega varaðir við því að blanda vökva sjálfir.
  • Einstaklingar sem nota rafrettur og fá einkenni frá lungum eins og hósta, uppgang, mæði og verk fyrir brjósti er ráðlagt að leita til læknis. Önnur einkenni sem lýst hefur verið í tengslum við rafrettunotkun í Bandaríkjunum eru einkenni frá meltingarvegi, líkt og ógleði, uppköst og niðurgangur, þreyta, hiti og þyngdartap.

Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu Embættis landlæknis.