Fljótsdalshérað er þátttakandi í samstilltu kynningarátaki, sem Úrvinnslusjóður hefur hrint af stað, vegna söfnunar á ónýtum rafhlöðum til úrvinnslu.
Markmið átaksins er að fá fleiri til að safna og skila notuðum rafhlöðum, auka vitund almennings um mikilvægi þess að rafhlöðum sé skilað og vekja athygli á að einfalt sé að losna við þær.
Hægt er að skila inn ónýtum rafhlöðum á bensínstöðvum á Fljótsdalshéraði sem veita þjónustu og á gámasvæði Sorpstöðvar Héraðs að Tjarnarási 11. Sameiginleg táknmynd átaksins eru teiknimyndafígúrurnar Raffa og Batti sem prýða allt kynningarefni þess.
Árið 2005 var ekki nema 21% af öllum seldum rafhlöðum skilað til úrvinnslu hér á landi. Þetta þýðir að rúm 124 tonn af rafhlöðum hafa farið í ruslið og því verið urðuð með öðrum úrgangi. Rafhlöður sem innihalda spilliefni eru mjög skaðlegar fólki og umhverfi og er því mjög mikilvægt að þeim sé skilað til úrvinnslu. Hluti þeirra rafhlaðna sem skilað er inn er urðaður, þ.e. þær sem ekki innihalda spilliefni, aðrar eru sendar í háhitabrennslu til viðurkennds eyðingaraðila í Danmörku. Þar er hitinn sem myndast við brennsluna nýttur til hvort tveggja framleiðslu rafmagns og hitunar vatns sem er notað til húshitunar hjá sveitarfélaginu Nyborg. Á heimasíðu Fljótsdalshéraðs, undir Íbúar og samfélag, er að finna auglýsingaborða sem vísar á vefsíðu Úrvinnslusjóðs þar sem finna má ítarlegri upplýsingar um átakið.