Ræktun skóga í lúpínubreiðum

Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands síðastliðið haust var nokkur umræða um lúpínu og gagnsemi hennar og var samþykkt að hvetja m.a. sveitarfélög og einstaklinga „til að nýta sér þá frjósemi sem lúpína skapar í ófrjósömu landi og rækta skóg í lúpínubreiðum.“ Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs tekur undir með Skógræktarfélags Íslands sem „bendir á að lúpínubreiður eru kjörnar til ræktunar skóga enda bætir lúpínan jarðveginn sem gerir hann betur fallinn til allrar ræktunar. Um leið og skógur vex upp úr lúpínu hörfar hún hratt. Þar sem lúpína bindur nitur stuðlar hún að hröðum vexti trjáplantna. Því tekur ekki langan tíma fyrir tré sem gróðursett eru í lúpínubreiður að skyggja út lúpínuna.“


Á Fljótsdalshéraði eru  allnokkrar lúpínubreiður og er vel þess virði að kanna hvort einhverjar þeirra mætti losna við með því að planta í þær trjám í stað þess að fara í dýrari og tímafrekari aðgerðir við útrýmingu. Vissulega henta ekki öll svæði, þar sem lúpína hefur breitt úr sér, til skógræktar, en hægt er að fá ráðleggingar m.a. hjá Skógræktarfélagi Íslands, Skógræktarfélagi Austurlands, Héraðs- og austurlandsskógum eða Skógrækt ríkisins, því að, eins og bent er á í ályktun aðalfundar Skógræktarfélags Íslands eru „[a]ðferðir til að koma trjágróðri í lúpínubreiður [...] kunnar. Skógræktarfélag Íslands er reiðubúið að veita ráðgjöf og leiðbeiningar um hvernig hægt sé að rækta skóg í lúpínubreiðum, t.d. hvað varðar val á trjátegundum og ræktunaraðferðum.“


Íbúar á Fljótsdalshéraði eru hvattir til að velta því fyrir sér hvort einhverjum lúpínubreiðum mætti skipta út fyrir trjálundi og kynna sér hvaða möguleikar eru til þess á þeirra landi, eða koma ábendingum um hentugar lúpínubreiður í landi sveitarfélagsins til verkefnastjóra umhverfismála, á netfangið freyr@egilsstadir.is.