- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
17. júní var haldinn hátíðlegur á Egilsstöðum í fallegu veðri. Fjölmenni mætti á hátíðarsvæðið í Lómatjarnargarði þar sem Eysteinn Hauksson þjálfari knattspyrnuliðs Hattar kynnti dagskrána sem var fjölbreytt að vanda. Fjallkona var Jóney Jónsdóttir kennari við ME en hátíðaræðuna flutti Björn Ingimarsson bæjarstjóri .
Ræðu Björns má lesa hér:
"Ágætu hátíðargestir!
Í dag erum við hér samankomin í tilefni af þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga. Degi sem haldinn er hátíðlegur á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar ár hvert, líkt og gert hefur verið allt frá stofndegi lýðveldisins á Þingvöllum árið 1944. Ég hygg að minningar okkar tengdar þessum degi séu nokkuð líkar og beri keim af sýn barnsins sem man daginn umvafinn birtu, hlýju og spennandi uppákomum. Fánar blakta við hún, skrúðgöngur liðast um og blöðrur svífa til himins. Við minnumst ánægjulegra samverustunda með fjölskyldu og vinum í umhverfi sem okkur er kært.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég og mín fjölskylda upplifum þjóðhátíðardaginn hér á Egilsstöðum þar sem við áttum þess ekki kost að vera hér heima við fyrir ári síðan og árin þar á undan bjuggum við ekki hér.
Þetta leiðir m.a. hugann að því þegar að fjölskyldur taka þá ákvörðun að flytja sig um set. Þegar að ég og mín fjölskylda tókum þessa ákvörðun þá var um það að ræða að flytja á stað sem við tengdumst litlum sem engum böndum.
Mér er minnisstætt þegar að ég var að gera börnunum grein fyrir fyrirhuguðum flutningi að eitt að því sem ég notaði til að réttlæta ákvörðunina var sú veðursæld sem hér ríkti. Ég var minntur á þetta loforð mitt reglulega síðastliðið sumar og enn er ég litinn hálfgerðu hornauga af fulltrúum yngri kynslóðarinnar á heimilinu þegar að veðurfarið hér ber á góma.
En það vita þeir er reynt hafa að það er meira en að segja það að flytjast landshornanna á milli og því kjósa flestir að gera slíkt sem sjaldnast. Ég hafði kynnt mér ágætlega það sem beið mín á mínum starfsvettvangi og gerði mér grein fyrir því að þar var framundan tími breyttra áherslna frá því sem verið hafði undanfarinn áratug.
Mikil uppbygging undanfarinna ára, sem m.a. hefur gert kleyft að skapa hér samfélagsumgjörð sem gerir sveitarfélagið aðlaðandi búsetuvalkost, leiddi óhjákvæmilega til þess að skuldsetning sveitarfélagsins varð nokkuð mikil. Þetta m.a. leiddi til þess að ekki er hjá því komist að gæta aðhalds í rekstri en horfa þó til þess að þjónustan við íbúana haldi áfram að þróast með eðlilegum hætti.
Það að takast á við verkefni sem þetta er ekki endilega vænlegt til vinsælda, meðan á stendur, en nauðsynlegt eigi að síður. Ég vil nota þetta tækifæri og færa bæði starfsmönnum, kjörnum fulltrúum og íbúum sveitarfélagsins þakkir fyrir það með hvaða hætti þessir hópar hafa tekið höndum saman um að ganga í þau vandasömu verk er legið hafa fyrir. Við höfum ekki endilega alltaf verið sammála um leiðir, enda ekki við því að búast, en skilningur ríkir á því að við ríkjandi aðstæður er aðgerða þörf. Þessi orð mín má þó ekki skilja sem svo að hér ríki svartnætti niðurskurðar og bölmóðs!
Það er langt því frá enda lít ég svo á að hér séu til staðar mikil tækifæri til þess að þróa áfram bæði öflugt atvinnulíf og mannvænlegt samfélag. Sjálf samsetning samfélagsins felur það í sér. Samfélag eins og okkar sem á kost á því að nýta bæði kosti dreif- og þéttbýlis með samspili öflugra landbúnaðar, þjónustu- og framleiðslufyrirtækja, án þess þó að vera um of háð einni atvinnugrein umfram aðra, er betur til þess fallið að standast áföll en ella, auk þess sem samsetningin býður upp á framþróun fjölbreytts atvinnulífs. Ýmsar sprotahugmyndir sem viðraðar hafa verið hér á undanförnum mánuðum renna stoðum undir þessa skoðun mína.
Að enginn sé eyland eru orð að sönnu og á sú fullyrðing hvort heldur við um einstaklinga sem og um samfélög. Þannig er það hluti af styrk okkar samfélags að eiga að góða granna. Það er oft látið mikið með þann mikla hrepparíg sem ráði ríkjum hér á Austfjörðum og verð ég að viðurkenna að mér þótti nóg um fyrst eftir að ég kom hér til starfa. Ég er hins vegar að komast á þá skoðun núna að það sé með þetta fyrirbæri líkt og með nána ættingja að þeir eiga það til að hnýta hver í annan en þegar harðnar á dalnum þá snúa þeir bökum saman.
Það er í okkar hag að nágrannasveitarfélögunum vegni vel og sömuleiðis felast þeirra hagsmunir í því að sveitarfélagið Fljótsdalshérað eflist. Um þetta eru forsvarsmenn sveitarfélaganna að verða æ meðvitaðri enda er nú lögð mikil áhersla, þeirra á meðal, á aukið samstarf um stærri úrlausnarmál.
Þótt okkar samfélag þyki stórt í samanburði við þau allra minnstu hér á landi þá er það þó það lítið að það hefur ekki glatað því sem einkennir smábæjarsamfélagið, og er það vel. Lítil samfélög einkennast, að mínu mati, af meiri félagslegum þroska en raunin er á í borgarsamfélögum. Auðvitað hefur smæð samfélagsins ákveðna neikvæða þætti í för með sér en ég held þó að þeir jákvæðu geri meir en að skáka þeim. Sú félagslega einangrun sem fyrirfinnst og er víðtæk í borgarsamfélaginu er nánast óþekkt fyrirbæri í samfélagi sem okkar. Og þó að við látum hvert annað fara í taugarnar á okkur annað slagið, tölum jafnvel illa hvert um annað og rífumst þegar að svo ber undir þá er það nú einu sinni svo að þegar að raunveruleg vandamál steðja að þá kemur í ljós styrkur okkar samfélags. Þá styðja menn við bakið hver á öðrum og láta sig náungann varða. Þetta eru verðmæti sem við skulum halda í.
Að lokum vil segja ég við ykkur það sama og ég segi við börnin mín þegar að ég tek til varna vegna veðurfarsins hér: Hér ríkir veðursæld, en hún birtist ekki eingöngu í háum lofthita heldur snýst þetta líka um þá hlýju sem þú skynjar frá og gefur umhverfinu sem þú hrærist í. Þar eru ég, þú, og við öll áhrifavaldarnir. Hlúum hvert að öðru og höldum áfram að eiga hér saman gefandi daga.
Gleðilega hátíð!"
Myndin sem fylgir fréttinni er birt með góðfúslegu leyfi agl.is.