Ráðstefna um hreina orku í mars

Miðvikudaginn 23. febrúar var haldin ráðstefna á vegum atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs, í samvinnu við Þróunarfélag Austurlands, um vetrarferðamennsku og vetraríþróttir. Í orðum formanns atvinnumálanefndar, Gunnars Þórs Sigurbjörnssonar, kom fram að markmið ráðstefnunnar væri "að skapa frjóan jarðveg og stuðning við vetraríþróttir og vetraferðamennsku svo möguleiki sé á uppskeru, uppskeru sem geti verið grundvöllur að fjölgun starfa."

Atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs undirbýr nú næstu ráðstefnu sína sem fjalla mun um hreina íslenska orku, en hún verður haldin 24. mars og fer fram á Hóte Héraði á Egilsstöðum. Meðal frummælenda eru fulltrúar frá Nýsköpunarmiðstöð, Metan, Orkusetrinu, Landsvirkjun, Sorpu og fleirum.

Í máli framsögumanna á ráðstefnunni um vetrarferðamennsku og vetraríþróttir kom fram að miklir möguleikar eru á uppbyggingu vetraríþrótta og vetrarferðamennsku á Austurlandi. Ólafur Hr. Sigurðsson bæjarstjóri á Seyðisfirði talaði um svæðið í Stafdal og útskýrði þá uppbyggingu sem þar er í gangi með nýrri lyftu. Miklir möguleikar eru í Stafdal og á Fjarðarheiði til uppbyggingar vetrarferðamennsku og vetraríþrótta.
Guðmundur Karl Jónsson framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og Hlíðarfjalls á Akureyri, sagði frá framkvæmdum þar og uppbyggingu vetraríþrótta og vetrarferðamennsku á Akureyri og víða í heiminum.
Viðar Garðarsson formaður Íshokkísambands Íslands talaði um skautaíþróttina og þá miklu uppbyggingu og möguleika sem þar hefur verið á síðustu árum. Hann sýndi m.a. myndir frá fyrsta íshokkíleik Íslands, sem fram fór á Pollinum á Akureyri.
Þá ræddi Ásta Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands um alla þá ónýttu möguleika sem eru í vetrarfeðramennsku.
Gönguskíðamenn sögðu frá starfsemi sinni og verið er að stofna fyrirtækið AUSTURFÖR um viðburðarferðamennsku, auk þess sem ný starfsemi fjallabíla er að fara af stað. Mikil gróska er því í þessari starfsemi.
Margt gott hefur verið gert á liðnum árum, en margt er enn ógert og miklir möguleikar fyrir framtakssamt fólk. Mikill hugur var í ráðstefnugestum og var m.a rætt um mikilvægi náins samstarfs milli skíðasvæðanna á Austurlandi, í Stafdal og Oddskarði.