Portretttónleikar í Sláturhúsinu

Laugardaginn 21. júlí kl.20.00 mun Hallvarður Ásgeirsson ásamt Kammersveit sinni halda tónleika í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Kammersveit Hallvarðs spilar andrýmistónlist (e. ambience) sem gengur út á hljóðhringrás strengjahljóðfæra (e. feedback), pedaltón, sem hljóðskúlptúr er vafinn í kringum. Tónlistin markast af gítarleik Hallvarðs, sem er unnin í gegnum hljóðeffekta og tölvu, ásamt fjölbreyttum strengjaleik Hallgríms Jónasar Jenssonar á selló og dórófón og Alexöndru Kjeld á kontrabassa og fiðlu. Tónlistin er einnig undir áhrifum frá tónskáldum þriðja Vínarskólans, og eru þau áhrif unnin í gegnum nútíma tónheim.

Dórófónn #7 er smíði Halldórs Arnar Úlfarssonar sem nýtir sér bæði hefbundna spilamöguleika sellósins og einnig endurómun sem verður til þegar strengirnir eru magnaðir upp og hljómur þeirra síðan sendur aftur inn í hljómkassa dórófónsins með hjálp raftækni.
Þakkir fær Tónskáldasjóður og Menningarráð Austurlands.
http://www.facebook.com/events/445807562106415/