Persónuverndarfulltrúi ráðinn til starfa

Aron Thorarensen hefur yfirumsjón með innleiðingu nýrra persónuverndarlaga hjá fimm sveitarfélögum á…
Aron Thorarensen hefur yfirumsjón með innleiðingu nýrra persónuverndarlaga hjá fimm sveitarfélögum á Austurlandi

Nýlega gengu í gildi ný lög um persónuvernd, sem kalla á mikla vinnu hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum við að skrá og skipuleggja alla ferla um meðferð persónuupplýsinga.

Fljótsdalshérað réð í vor Aron Thorarensen sem verkefnastjóra til að stýra innleiðingarferlinu og hafa yfirumsjón með verkefninu hjá sveitarfélaginu, meðan það strendur yfir.

Nýlega var svo gengið frá samningi við sveitarfélögin Djúpavogshrepp, Fljótsdalshrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Borgarfjarðarhrepp, um að Aron stýri einnig sambærilegri vinnu í þeim sveitarfélögum. Jafnframt var samið við Aron um að hann taki að sér starf persónuverndarfulltrúa fyrir umrædd sveitarfélög þann tíma sem verkefnið stendur yfir.  Aron er lögfræðingur að mennt og vann sem slíkur hjá Íbúðalánasjóði, áður en hann var ráðinn til þessa verkefnis.

Aron hefur starfsaðstöðu á skrifstofum Fljótsdalshéraðs að Lagarási 12 á Egilsstöðum og hægt verður að hafa samband við hann með því að hringja í afgreiðslu Fljótsdalshéraðs í síma 4700700 eða með því að senda honum tölvupóst á netfangið personuvernd@fljotsdalsherad.is.