Páskafjörið í Safnahúsinu

Páskafjör var haldið í Safnahúsinu á Egilsstöðum þann 28. mars síðastliðinn. Þar var margt brasað og allir skemmtu sér hið besta við föndur, eggjaleit, sögu – og ljóðaupplestur, vöffluát og síðast en ekki síst við fræðslu á gömlum páskahefðum.

Það var margt um manninn í Safnahúsinu þennan dag en áætlað er að hátt í 100 manns hafi heimsótt húsið. Það var margt spennandi á boðstólnum fyrir alla aldurshópa. Eggjaleit var á efstu hæð hússins þ.e á bókasafninu, en þar hafði starfsfólk hússins falið 20 soðin hænuegg á milli bóka og í blómum. Í fyrri hóp eggjaleitar voru börnin ekki nema ca. 3 mínútur að finna eggin þannig að þau voru falin aftur á meðan þau hlustuðu á upplestur. Á neðstu hæð hússins, við inngang Héraðsskjalasafnsins var hægt að taka þátt í allskyns spennandi föndri. Hægt var að blása úr eggjum og lita þau svo í allsskyns regnbogans litum.

Þá voru 2 konur á staðnum sem kenndu og aðstoðuðu bæði börn og fullorðna við ýmislegt föndur, svo sem að búa til túlípana úr pappír, páskakanínur og – unga og margt fleira. Þá voru 2 listaverk þar sem hafði verið forteiknuð mynd og gestum boðið upp á að fylla upp í með eggja mósíaki. Þessi listaverk eru núna til sýnis á efstu hæð Safnahússins.
Á miðhæð hússins, í Minjasafninu var svo búið að koma upp auka fróðleik um páskahefðir og frekari fróðleik sem tilheyrir þessum árstíma. Þá var gestum að sjálfsögðu velkomið að skoða minjar safnsins. Ljósmyndasýningin sem er um allt Safnahús gaf gestum svo enn frekari innsýn inn í klæðaburð fólks fyrr á tímum. Í andyri Minjasafnsins var boðið upp á vöfflur með rjóma, kaffi, kakó og mjólk og var afskaplega notalegt fyrir gesti að setjast niður og njóta veitingana eftir vel heppnaðan dag í Safnahúsinu. Það er ástæða til að benda fjölskyldufólki á að fylgjast með opnum dögum hjá Safnahúsinu. Starfsfólkið þar reynir að höfða til allra í fjölskyldunni með spennandi verkefnum og sýningum fyrir gesti. Það hafa allir gaman að því að gera sér dagamun og nýta sér þessa frábæru afþreyingu sem boðið er upp á.
Þann 23. apríl á Sumardaginn fyrsta verður næst opið hús í Safnahúsinu þar sem sumrinu verður fagnað með ýmsum hætti. Þar verða dregnar fram sumargjafir, upplestur verður, sýning á ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Austurlands og opnuð verður sýning um fólkið á Skriðuklaustri. Dagskrá verður auglýst síðar.