„Ormurinn“ öruggur í Safnahúsinu

Í sumar hefur verið í gangi söfnun fyrir myndverki eftir Ingibjörgu Helgu Ágústsdóttur.

Myndin hefur hangið uppi í Safnahúsinu en hún er hingað komin fyrir tilstilli nokkurra kvenna á staðnum. Þetta er útskorið verk af Lagarfljótsorminum og er bæði hægt að láta orminn vera í felum í Fljótinu og sjást. Söfnunin hefur haft vinnuheitið „Orminn heim“.

Í gær var svo Fljótsdalshéraði afhent verkið að gjöf á afmælisdegi Laufeyjar Eiríkisdóttur. Hún og Emil maður hennar höfðu boðið til hófs, í tilefni 120 ára sameiginlegs afmælis. Gjafir voru afþakkaðar, en boðið upp á að þeir sem vildu og gætu - legðu fé í söfnunina.

Í veislulok afhenti Laufey sveitarfélaginu gjafabréf fyrir „Orminum“ – með þeim orðum að óskað væri eftir að myndin yrði varðveitt þar sem heimafólk, jafnt börn sem fullorðnir svo og ferðamenn gætu notið hennar. Benti hún á Safnahúsið sem ákjósanlegan stað.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, tók við gjafabréfinu fyrir hönd Fljótsdalshéraðs.