Ormsteitið hefst í dag

Í dag, föstudaginn 17. ágúst, hefst Ormsteiti Héraðshátíð með vanabundinni Hverfahátíð og Hverfaleikum.  Íbúar sinna hverfa koma saman og borða og skemmta sér og þramma síðan í skrúðgöngum á Vilhjálmsvöll þar sem hátíðin er formlega sett klukkan 20.00. 

Síðan fara fram Hverfaleikar þar sem hverfin keppa innbyrðis í ýmsum og fjölbreytilegum íþróttagreinum.  Klukkan 22.00 er arkað í miðbæinn þar sem til dæmis er boðið upp á fjölskyldudansleik.

Ungverskur lífeðlisfræðingur og tattómeistari hefur unnið að því að hressa við Lagarfljótsorminn fyrir hátíðina og húðflúrað hann að nútímasið.  Ormurinn langi mun síðan mæta eftir rækilega yfirhalningu við setningu Ormsteitis, spúa þar eldi og taka þátt í gleðinni.

Einnig hafa verið útbúin póstkort með mikilvægum skilaboðum sem 60 ormalingar þeysa með um allan bæ um morguninn svo bæjarbúar geti kynnt sér hvað er á seyði.