Ormsteitið fær eigin heimasíðu

Nú er einn mánuður í að Ormsteiti, 10 daga veisla á Héraði hefjist. Af því tilefni verður á morgun opnuð heimasíða Ormsteitis með veffangið www.ormsteiti.is þar sem verður að finna helstu upplýsingar um þessa fjölbreyttu hátíð.
 

Vegna 60 ára afmælis þéttbýlisins á Egilsstöðum verður hátíðin óvenju vegleg að þessu sinni og margir viðburðir sem full ástæða verður til að taka þátt í eða fylgjast með.
Ekki væri úr vegi fyrir gesti og gangandi að verða sér út um göngukort af svæðinu og taka sér heilsubótargöngur á milli þess sem skipulegra viðburða verður notið.
Fróðir menn telja einnig von á góðri berjasprettu og eins fjölgar lerkisveppum á Héraði með hverju árinu, eftir því sem lerkiskógurinn stækkar og verður víðfeðmari. Það ætti því engum að leiðast á Héraði þessa daga, sem vonandi bjóða upp á sól og sumaryl.
Hvetjum nú vini og vandamenn til að heimsækja okkur Héraðsbúa á þessum tíma og upplifa með okkur veglega Ormsteitishátíð.