Ormsteitið 2017 – dagskráin öll

Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að skreyta garða og götur í hverfalitunum en á föstudag fer d…
Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að skreyta garða og götur í hverfalitunum en á föstudag fer dómnefnd á ról til að meta bestu skreytingarnar.

Ormsteiti, hin árlega Héraðshátíð hefst miðvikudaginn 9. ágúst og stendur til og með sunnudagsins 13. ágúst. Það sem helst setur mark sitt á teitið að þessu sinni er að 70 ár eru nú liðin frá því Egilsstaðahreppur var stofnaður með lögum. Í tilefni þess verður boðið til grillveislu í Tjarnargarðinum seinnipart föstudagsins og í afmæliskaffi á laugardaginn.
Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að skreyta garða og götur en á föstudaginn fer dómnefnd á ról til að meta bestu skreytingarnar. Viðurkenningar verða síðan veittar á dagskránni á laugardeginum fyrir best skreytta húsið, best skreyttu götuna og best skreytta hverfið.


Miðvikudagurinn
Dagskrá Ormsteitisins hefst með tónleikum Elínar Ey í Egilsstaðakirkju miðvikudaginn 9. ágúst klukkan 20. Elín Ey er m.a. þekkt fyrir að vera í hljómsveitinni Sísí Ey ásamt systrum sínum. Hún á ekki langt að sækja hæfileikana en foreldrar hennar eru Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson. Frítt er á tónleikana.


Fimmtudagurinn
Á fimmtudeginum hefst dagskráin með púttmóti eldriborgara í Skjólgarðinum, á bak við pósthúsið. Eldriborgarar bjóða síðan upp á skemmtun og kaffi klukkan 16 í Hlymsdölum.

Síðar um daginn, eða klukkan 18, er boðið upp á ungmennaskemmtun við Sláturhúsið. Þar verður boðið upp á grillaðar pylsur, hoppurennibraut og loks verður kvikmyndin „Með allt á hreinu“ sýnd í útibíói og popp fyrir alla.
Um kvöldið bjóða Fellbæingar upp á gómsæta heimalagaða súpu frá klukkan 19 til 21. Þau heimili sem að þessu sinni bjóða til heimsóknar eru Lagarfell 12, Helgafell 1-3, Ullartangi 5, Lagarfell 8, Hamrafell 4, Brekkubrún 5 og Háafell 1. Hvatt er til þess að gestir taki með sér bolla eða ílát fyrir súpuna.

Blúsbandið „The Beauty and the Blues“ heldur svo uppi fjöri á Bókakaffi frá klukkan 21 og fram eftir kvöldi.


Föstudagurinn
Frá klukkan 18:15 á föstudeginum er íbúum boðið í afmælisgrill í Tjarnargarðinum. Þaðan verður svo gengið fylktu liði inn á Vilhjálmsvöll um klukkan 19:15, en hinir árlegu hverfaleikar hefjast þar klukkan 19:30 með setningu Héraðshöfðingjans. Þá keppa hverfin sín á milli í skemmtilegum leik. Magni Ásgeirs stjórnar brekkusöng og hljómsveitin MurMur leikur nokkur lög. Þá má búast við karamelluregni. Íbúar eru hvattir til að mæta klædd í sinum hverfalitum á hverfaleikana og með góða skapið.

Vakin er athygli á því að á Vilhjálmsvelli fer fram fótboltaleikur á milli Hattar og Sindra í 2. deild karla og hefst hann klukkan 17.

Laugardagurinn
Laugardagurinn einkennist af hjólreiðakeppni, afmælisdagskrá, tónleikum og dansleik. Dagurinn hefst með því að keppendur í Tour de Ormurinn verða ræstir af stað við N1 klukkan 9. Hjólað er í kringum Lagarfljótið og eru tvær vegalengdir í boði, 103 og 68 kílómetrar. Hvatt er til þess menn fjölmenni þegar keppendur fara af stað og koma aftur í markið við N1, en gert er ráð fyrir að þeir fyrstu komi í mark um klukkan 11. Frekari upplýsingar um keppnina er að finna á https://www.facebook.com/TourDeOrmurinn

Milli klukkan 10 og 12 býður sundlaugin á Egilsstöðum frítt í sund og þá hefst þar sunddans fyrir börn og fullorðna klukkan 10:00.

Klukkan 13 hefst fjölbreytt dagskrá á hátíðarsvæðinu við Kaupvang á Egilsstöðum (innan við skattstofuna). Fljótsdalshérað býður þá öllum til afmæliskaffis í tilefni af því að 70 ár eru liðin frá því Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þéttbýli hóf að myndast við Lagarfljótið.

Ýmislegt skemmtilegt verður síðan í boði. Hljómsveitin Áttan kemur fram, Karen, Ragnhildur og Soffía taka nokkur lög, krakkasprell á sviði, hoppukastalar verða á svæðinu, tatto, sápukúlur, andlitsmálning og fleira. Þá veita Fljótsdalshérað og Garðyrkjufélag Fljótsdalshéraðs umhverfisviðurkenningar.

Á Ormsteiti hefur skapast sú hefð að bjóða öllum sem flutt hafa til Fljótsdalshéraðs frá því síðasta Ormsteiti var haldið, fyrir um ári, til sérstakrar móttöku. Móttaka nýbúa fer fram á hátíðarsvæðinu stundvíslega klukkan 13:15 og eru þeir sem flutt hafa til sveitarfélagsins frá því í ágúst í fyrra hvattir til að mæta.

Afmælistónleikar hefjast á hátíðarsvæðinu klukkan 18:30 og er gert ráð fyrir að þeim ljúki upp úr klukkan 21:30. Fram koma Jón Jónson, Á móti sól, Made in sveitin, Sylvía Erla og Úlfur Úlfur.
Klukkan 23 hefst hinn rómaði Nostalgíudansleikur í Valaskjálf. Þar leika hljómsveitirnar Á móti sól og Made in sveitin fyrir dansi fram í nóttina.


Sunnudagurinn
Sunnudagurinn er hinn skemmtilegi Fljótsdalsdagur. Dagskráin þennan dag fer fram í Fljótsdalnum en einnig í Vallanesi.

Klukkan 9:45 verður Fossahringurinn genginn frá Laugarfelli.

Frá klukkan 10 til 12 verða skoðunarferðir í Fljótsdalsstöð á 20 mínútna fresti.

Milli klukkan 11 og 14 býður Óbyggðasetrið upp á tilboð á sýningu og Snæfellsstofa verður með léttan Sudoku leik. Hádegisverðarhlaðborð verða hjá Klausturkaffi og í Laugarfelli.

Klukkan 14 hefst dagskrá á Skriðuklaustri. Þjóðlagasveitin Kólga spilar þar á stéttinni.

Klukkan 15 hefjast hinir árlegu Þristarleikar við Gunnarshús. Þar verður keppt í sekkjahlaupi, rabbarbarakasti, steinatökum og fleiru.

Klukkan 16:30 verður guðsþjónusta á rústum klausturkirkjunnar. Kaffihlaðborð verða hjá Klausturkaffi og í Óbyggðasetri.

Á milli klukkan 13 og 17 verður heilmikið um að vera á Vallanesi. Hin árlega skógargleði fer fram á göngustígnum Orminum. Að venju verður boðið upp á hljóðfæraleik en Gunnar Jónsson Collider mun taka lagið, einnig verður ljóðalestur, sýnd handbrögð við tálgun úr viði, varðeldur, veitingar og óvæntar uppákomur. Þá verður þar markaður.

Framkvæmdastjóri Ormsteitis er Erla Dögg Grétarsdóttir og upplýsingar um Ormsteitið er að sjálfsögðu að finna á https://www.facebook.com/ormsteiti og á www.ormsteiti.is