Opið hús í Sláturhúsinu á laugardag

Laugardaginn 17. febrúar verður opið hús í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum. Þá verða Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Vegahúsið ungmennahús kynnt gestum og gangandi frá klukkan 14 til 16.

Kristín Atladóttir forstöðumaður kynnir dagskrá miðstöðvarinnar næstu mánuði sem og aðstöðuna í húsinu. Þá verður opnuð sýning á verkum þýska ljósmyndarans Heide Schubert klukkan 14 og sýnd verður heimildamyndin 690 Vopnafjörður. Hægt verður að skoða nýja ljósmyndunar- og framköllunaraðstöðu, endurbætt myndlistarstúdíó og dans- og hreyfilistarrými sem nýlega er búið að koma upp í húsinu.

Vakin er athygli á að klukkan 16 verður ný heimildarmynd eftir Körnu Sigurðardóttur, 690 Vopnafjörður, sýnd en Karna verður á staðnum og situr fyrir svörum að sýningu lokinni. Aðeins verður um tvær sýningar að ræða á myndinni á Egilsstöðum. Aðgangseyrir á sýninguna er 1.200 krónur.

Allir eru hvattir til að skoða Sláturhúsið og kynna sér það sem verður á döfinni hjá Menningarmiðstöðinni og Vegahúsinu í ár og ræða hugmyndir að nýjungum í starfseminni.