- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Sjúkraþjálfunarstofan Heilsuleiðir, sem opnuð var á Egilsstöðum í októberbyrjun, verður með opið hús á morgun, föstudaginn 13. desember, frá 15.30 18.00 þar sem áhugasamir geta kynnt sér aðstöðuna.
Lonneke van Gastel, sjúkraþjálfari og eigandi Heilsuleiða, stofnaði stofuna því þörfin er brýn og langir biðlistar í að komast í sjúkraþjálfun á Héraði.
Stofan er á efri hæðinni í Níunni í miðbæ Egilsstaða. Þar er sérbúin sjúkraþjálfarastofa með tækjasal, nokkrum meðferðarherbergjum og svæði til sjúkraþjálfunar fyrir börn.
Lonneke starfar fyrst um sinn þarna ein en hún segir aðstöðuna ekki bara hugsaða fyrir einn starfsmann, hún vonist til að fá fleiri með sér með fjölbreyttari bakgrunn. Hún stundar almenna sjúkraþjálfun en sérgrein hennar er barnasjúkraþjálfun.
Lonneke er fædd í Hollandi en hefur unnið í Reykjanesbæ, Vopnafirði og síðustu sex ár hjá HSA með aðsetur á Egilsstöðum.