- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Vikuna 12. – 17. ágúst verður íbúum á Austurlandi boðið upp á heilsufarsmælingar á vegum SÍBS Líf og heilsu.
SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Samtökum sykursjúkra, Hjartaheill og Samtökum lungnasjúklinga bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Mælingarnar eru hluti af hringferðum SÍBS Líf og heilsa um landið þar sem þúsundir hafa þegið ókeypis mælingu. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs.
Á Fljótsdalshéraði verða heilsufarsmælingar á Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum frá klukkan 9:00 til 15:00 fimmtudaginn 16. ágúst. Ekki þarf að panta tíma, eingöngu mæta í Heilsugæslustöðina og taka númer.
Skorað er á alla þá sem ekki eru undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og ekki þekkja gildin sín að nota tækifærið og fá mælingu. Því yngra sem fólk er þegar það byrjar að fylgjast með blóðþrýstingi, blóðfitu og blóðsykri, því líklegra er að takist að koma í veg fyrir að það þrói með sér alvarlega og langvinna sjúkdóma.